Skilaboð íbúaþings á Vopnafirði: Bjóðum unga fólkið velkomið aftur heim

Til að efla samfélag og byggð á Vopnafirði, þarf að fjölga ungu fólki á aldrinum 20 – 40 ára og auka fjölbreytni í atvinnulífi. Með jákvæðum viðhorfum og samvinnu, eru Vopnfirðingum allir vegir færir.


Þetta voru meginniðurstöður íbúaþings sem haldið var á Vopnafirði um nýliðna helgi. Skipuleggjendur segja þátttök hafa farið fram úr björtustu vonum. Um 80 manns hafi sótt þingið sem einkenndist af krafti og gleði.

Með þinginu hófst byggðaþróunarverkefni sem Vopnafjarðarhreppur stendur að, í samstarfi við Byggðastofnun, Austurbú og íbúa. Verkefnið mun standa að lágmarki í eitt ár og á þinginu hlaut það nafnið „Veljum Vopnafjörð“.

Í tilkynningu frá skipuleggjendum segir að íbúar eigi sér draum um stækkun byggðar og fjölgun íbúa og atvinnutækifæra, m.a. fyrir háskólamenntaða. Ýmis tækifæri séu í stofnun smáfyrirtækja. Auka þurfi framboð á íbúðarhúsnæði til leigu og atvinnuhúsnæði og huga að því í skipulagi. Þörf sé á stækkun hjúkrunarheimilisins Sundabúðar.

Vopnafjörður er kjörlendi fyrir landbúnað, sem ætti að vera áfram ein af grunnstoðum byggðarinnar. Hugmynd um hreindýraeldi og ræktun, fékk góðan hljómgrunn.

Margir eiga sér draum um nýja sundlaug inni í þorpinu og lögð var áhersla á góðar aðstæður til útivistar og gróðursælan og fallegan bæ og byggð. Ýmsar hugmyndir komu fram um starfsemi og nýtingu á Kaupvangi, Minjasafninu, Bustarfelli og Félagsheimilinu Miklagarði og lögð var áhersla á afþreyingu, menningu og iðandi mannlíf á Vopnafirði.

Ferðaþjónusta er einn af vaxtarbroddunum til að auka fjölbreytni í atvinnulífi og voru tækifæri á því sviði rædd í nokkrum hópum, m.a. hugmynd um stóran útivistarratleik fyrir fólk hvaðanæva að úr heiminum. Málefni barna og unglinga voru rædd, t.d. um aukið samstarf grunnskóla og atvinnulífs og sumarstörf fyrir ungt fólk.

Hópur sem ræddi um hvort auka ætti útboð á þjónustu sveitarfélagsins taldi að byrja þurfi á hagkvæmniathugun. Ræddir voru kostir og gallar sameiningar við önnur sveitarfélög en meta þurfi í hvaða átt sé best að sameinast með tilliti til uppbyggingar landshlutans á næstu áratugum.

Verkefnisstjórn, sem skipuð er fulltrúum þeirra sem standa að verkefninu, mun nú vinna frekar úr niðurstöðum og er stefnt að íbúafundi eftir 4 – 6 vikur, þar sem næstu skref verða kynnt. Fjölmargir íbúar lýstu áhuga á að vera með í að fylgja þinginu eftir og skráðu nöfn sín á hin ýmsu mál.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.