Skiptir miklu máli að ganga rétt frá sólarsellum á húsþökum
Slökkviliðsmenn og byggingafulltrúar úr Fjarðabyggð og Múlaþingi fengu í vikunni kynningu á hvernig bregðast eigi við ef eldur kemur upp í húsi þar sem sólarsellur hafa verið settar upp. Slökkvistjóri segir góðan búnað og réttan frágang lykilatriði í að draga úr eldhættu.Í Neskaupstað hefur undanfarnar vikur verið unnið að því að setja upp sólarsellur til raforkuframleiðslu á þaki íbúðarhúss Jeff Clemmensen og Þórdísar Sigurðardóttur. Sérfræðingar frá danska fyrirtækinu Allgreen sjá um verkið og þeir héldu í byrjun vikunnar kynningu á sólarsellum, eldhættu og réttum viðbrögðum við eldsvoða.
„Við búumst við að svona kerfum fjölgi á okkar svæði á næstu árum og þess vegna er gott að hafa fengið kynningu á hvernig hann virkar og hverjar hætturnar eru,“ segir Júlíus Albertsson, slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð og einn þeirra sem sótti kynninguna.
Hann segir að ef búnaðurinn er góður og rétt frá honum gengið eigi eldhætta í húsum með sólarsellur ekki að aukast. „Ef að kunnáttumenn eru fengnir til að ganga frá búnaðinum, eins og okkur sýnist vera gert á Norðfirði, þá á eldhættan ekki að aukast. En ef bara einhver vinnur verkið eða fengin er lélegur búnaður, til dæmis notast við gömul batterí, þá getur hættan aukist.“
Háspenna kemur niður af þakinu
Áhersla slökkviliðsins er hins vegar á rétt vinnubrögð ef eldur kviknar af einhverjum orsökum í húsi með svona búnað. „Það er ekki beint eldhætta frá búnaðinum heldur aukin hætta ef það kviknar í. Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir að í kerfinu í Neskaupstað koma 800 volt niður af þakinu. Venjulega eru 220 volt í húsunum okkar. Þetta er háspenna sem getur verði stórhættuleg ef hún er umgengist á rangan hátt.
Eins skiptir máli hvernig gengið er frá batteríunum. Oftast eru þetta lithium batterí sem geta verið hættuleg ef það kviknar í þeim. Þess vegna skiptir okkur máli að vita hvernig kerfin eru uppbyggð,“ segir Júlíus.
Setja þarf íslenskar reglur
Við uppsetningu kerfisins í Neskaupstað hefur verið notast við danskar reglur því þær íslensku eru ekki til. Þær dönsku krefjast þess meðal annars að á einfaldan hátt sé hægt að slökkva á sólarsellunum utan frá húsinu ef eldur kemur upp. Júlíus segir æskilegt að Íslendingar setji sér reglur. „Það flækir hlutina að hafa ekki íslenskar reglur. Það væri ekki verra að stjórnvöld skoðuðu íslensku reglurnar og kæmu svipuðum á hérlendis.“
Júlíus segist ekki hafa fengið tækifæri til að skoða áður jafn öflugt kerfi og sett hefur verið upp í Neskaupstað. „Ég hef frekar skoðað búnað eins og er á húsbílum en á bakvið hann eru allt aðrar spennutölur. Það er jákvætt að hafa fengið þessa kynningu því öll þekking er góð, einkum í svona nýrri tækni sem við Íslendingar eigum margt ólært um, þannig hún verði okkur til framdráttar.“
Frá uppsetningu sólarsellanna um síðustu helgi. Mynd: Jeff Clemmensen