Skipulagsmál ættu ekki að flækja sameiningar

Starfshópur um skipulagsmál, sem skipaður var vegna sameiningarviðræðna Fljótsdalshéraðs, Djúpavogshrepps, Borgarfjarðarhrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar telur mikilvægt að sveitarfélögin undirbúi sín skipulagsmál vel fyrir sameiningu. Þau eigi ekki að vera til trafala við mögulega sameiningu.

Þetta kemur fram í minnisblaði starfshóps um umhverfis- og skipulagsmál, sem er meðal þeirra gagna sem liggja fyrir íbúafundum sem haldnir eru í sveitarfélögunum þessa vikuna. Þriðju fundurinn af fjórum verður í kvöld á Djúpavogi.

Hópurinn sér hvorki fyrir sér teljandi vandamál í skipulagsmálum verði af sameiningu, eða vandamál sem fylgja henni, nema helst í samgöngumálum. Samræma þarf skipulög og samþykktir.

Í vinnu hópsins var bent á að mikilvægt sé að hvert sveitarfélaganna hefji strax vinnu við að móta frumhugmyndir að aðalskipulagi á sínu svæði. Þannig sé hægt að átta sig á hvar samhljómur sé milli málsaðila.

Ýmsar áskoranir eru þó fyrir hendi. Sveitarfélögin reka til dæmis þrjá urðunarstaði í dag, þau hafa mótað sér ólíka afstöðu til heimagistingar, fráveitumál eru mislangt komin, samræma þarf snjómokstursreglur og skilgreina mismunandi áherslur milli þriggja hafna.

Í samtölum við byggingafulltrúa lýstu þeir miklum áhyggjum af samdrætti á skrifstofu skipulagsmála við sameiningu og sögðust ekki sjá mikla möguleika á hagræðingu í eftirliti. Nærtækara sé að horfa á bætta þjónustu frekar en hagræðingu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar