Skoða framtíðarfyrirkomulag samstarfs um brunavarnir
Endurskoðun stendur yfir á fyrirkomulagi slökkviliða í Múlaþing, Fljótsdal og Vopnafjarðarhreppi. Til stendur að leggja niður byggðasamstarfið Brunavarnir á Austurland eftir tilurð Múlaþings.Samstarfið í brunavörnum er meðal þess sem varð til þess að Borgarfjarðarhreppur, Djúpavogshreppur, Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstaður fóru að ræða saman um sameininguna sem tók formlega gildi fyrir mánuði.
Sveitarfélögin hafa átt í samstarf við Fljótsdalshrepps og Vopnafjarðarhrepps um brunavarnir, en íbúar þeirra sveitarfélaga kusu að standa utan sameinignarviðræðnanna.
Á aðalfundi Brunavarna á Austurlandi í september var mörkuð sú stefna að leggja samlagið niður í núverandi mynd. Formaður þess, Björn Ingimarsson bæjarstjóri Múlaþings, segir að í staðinn verði til slökkvilið Múlaþings og verði samstarfssamningur gerður við Vopnfirðinga og Fljótsdælinga á svipuðum forsendum og verið hefur innan byggðasamlagsins.
Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps lýsti yfir áhyggjum sínum vegna breytinganna á síðasta fundi. Á Vopnafirði var Söru Elísabetu Svansdóttur, sveitarstjóra, falið að greina hvaða kostir væru í stöðunni við rekstur slökkviliðs á Vopnafirði.
Í svari við fyrirspurn Austurfréttar segir hún að viðræður séu í gangi við Múlaþing um samstarfssamning á svipuðum nótum og verið hafi. Allt sé enn í skoðun en samkomulagið um brunavarnirnar sé enn í gildi.