Greina kostnað við að endurgreiða bílastæðagjöld
Heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands vinna að því að skoða hvort rétt sé að breyta reglum þannig að bílastæðagjöld falli undir endurgreiðsluhæfan ferðakostnað sjúkratryggða. Athugunin kemur í framhaldi af því að Isavia innanlandsflugvellir ehf. hóf að innheimta bílastæðagjöld við innanlandsflugvelli.Þetta kemur fram í svari Willums Þórs Willumssonar, heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Líneikar Önnu Sævarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi um hvort bílastæðagjöldin heyrðu undir endurgreiðsluhæfan ferðakostnað sjúkratryggða og aðstanenda.
Í svarinu er vísað til reglna um að Sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði vegna ferða sjúkratryggðra einstaklinga við að sækja heilbrigðisþjónustu utan heimabyggðar. Endurgreiddur er kostnaður vegna ferða með flugi, ferju, áætlunarbíla eða annarra almenningsfarartækja, sem og kostnaður vegna bílaleigubíla, leigubíla eða vegtolla.
Ekkert er í reglunum í dag um endurgreiðslu bílastæðagjalda. Þau hafa til þessa ekki verið endurgreidd, til dæmis ef lagt er í gjaldskyld stæði nærri heilbrigðisstofnunum. Nú sé hins vegar í gangi vinna ráðuneytisins og Sjúkratrygginga við að meta kostnað við að endurgreiða stöðugjöldin.