Skoða seiðaeldi í Reyðarfirði
Fiskeldisfyrirtækið Laxar vill skoða möguleika á að koma upp seiðaeldisstöð í Reyðarfirði sem myndi nýta varmaorku frá álveri Alcoa Fjarðaáls. Framkvæmdastjóri Laxa segir hugmyndina á frumstigi.„Þetta eru framtíðarpælingar og óvíst að af þessu verði en fyrirtækjarekstur gengur út á að horfa bæði til lengri og skemmri tíma,“ segir Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa.
Bæjarráð Fjarðabyggðar tók erindi frá Löxum fyrir á síðasta fundi sínum fyrir páska og samþykkti að hefja viðræður við Laxa um mögulega uppbyggingu seiðaeldis í Reyðarfirði. Tillögurnar gera ráð fyrir að eldið yrði í landi Flateyrar, sem er næsta býli fyrir utan álverslóðina á Hrauni.
Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð og forsvarsfólk Alcoa hafa að undanförnu skoðað möguleika á nýtingu varma sem fellur til frá álbræðslunni til að hita hús á Reyðarfirði. Þann varma væri mögulega hægt að nota í fleira. „Það hafa verið uppi ákveðnar hugmyndir um nýtingu varma sem kemur frá álverinu. Ef af þeim verður á einhverjum tímapunkti þá væri hægt að nýta hana í starfsemi sem þessa,“ segir Jens.
Hann segir málið enn á algjöru forstigi en ákveðið hafi verið að óska eftir samstarfi við Fjarðabyggð um að skoða málið frekar. Laxar reka í dag þrjár eldisstöðvar í Ölfusi og áforma frekari uppbyggingu þar á næstunni. Fyrirtækið er með sjókvíaeldi í Reyðarfirði og eru seiði flutt í það úr eldisstöðvunum fyrir sunnan land.