Skoðanakönnun meðal Reyðfirðinga um nafn á nýju ísbúðina

Reyðfirðingum verður gefinn kostur á að kjósa um nafn á nýrri ísbúð sem opnar í húsnæði sem áður hýsti Shell-stöðina á sunnudag. Fallið hefur verið frá samkrulli ísbúðarinnar við rafrettuverslun í merki og heiti hússins. Eigandi segir það ekki hafa hugsað til markaðssetningar heldur lýsa þeirri starfsemi sem í húsinu væri.

„Í kjölfar fleiri ábendinga og samræðna tókum við þessa ákvörðun,“ segir Gunnar Viðar Þórarinsson, eigandi ísbúðarinnar og Djáknans, sérverslunar með rafrettur, sem fyrir er í húsinu.

Nafngiftin Shake n‘ Vape með merki þar sem bæði gaf að líta rjómaís og rafrettu vakti sterk viðbrögð meðal foreldra á Reyðarfirði sem töldu að verið væri að markaðssetja rafrettur til ungmenna. Eins og Austurfrétt greindi frá í gær bast Fjölmiðlanefnd, sem hefur eftirlit með banni á auglýsingu á rafrettum, kvörtun vegna þessa.

„Þetta var alls ekki úthugað sem markaðsverkfæri til að höfða til ungmenna. Það var höfuðverkur að velja nafn á ísbúðina og fyrstu viðbrögð sem við fengum við nafninu voru mjög góð,“ segir Gunnar Viðar.

Sem fyrr segir hefur nafnið verið dregið til baka og verður kosið um nýtt í Facebook-hópi Reyðfirðinga. Kosningin hófst í hádeginu og verður opin í um sólarhring. Fólk getur þar ýmist greitt atkvæði nöfnum sem komin eru fram eða stungið upp á öðum.

Ísbúðin opnar samkvæmt áætlun á sunnudag. Einhver bið verður á að hún verði merkt. Til stóð að setja upp nýjar merkingar á húsið í dag og á morgun en því hefur verið frestað þar til nýtt nafn og viðeigandi merki hafa verið staðfest.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.