Skoðanakönnun meðal Reyðfirðinga um nafn á nýju ísbúðina
Reyðfirðingum verður gefinn kostur á að kjósa um nafn á nýrri ísbúð sem opnar í húsnæði sem áður hýsti Shell-stöðina á sunnudag. Fallið hefur verið frá samkrulli ísbúðarinnar við rafrettuverslun í merki og heiti hússins. Eigandi segir það ekki hafa hugsað til markaðssetningar heldur lýsa þeirri starfsemi sem í húsinu væri.„Í kjölfar fleiri ábendinga og samræðna tókum við þessa ákvörðun,“ segir Gunnar Viðar Þórarinsson, eigandi ísbúðarinnar og Djáknans, sérverslunar með rafrettur, sem fyrir er í húsinu.
Nafngiftin Shake n‘ Vape með merki þar sem bæði gaf að líta rjómaís og rafrettu vakti sterk viðbrögð meðal foreldra á Reyðarfirði sem töldu að verið væri að markaðssetja rafrettur til ungmenna. Eins og Austurfrétt greindi frá í gær bast Fjölmiðlanefnd, sem hefur eftirlit með banni á auglýsingu á rafrettum, kvörtun vegna þessa.
„Þetta var alls ekki úthugað sem markaðsverkfæri til að höfða til ungmenna. Það var höfuðverkur að velja nafn á ísbúðina og fyrstu viðbrögð sem við fengum við nafninu voru mjög góð,“ segir Gunnar Viðar.
Sem fyrr segir hefur nafnið verið dregið til baka og verður kosið um nýtt í Facebook-hópi Reyðfirðinga. Kosningin hófst í hádeginu og verður opin í um sólarhring. Fólk getur þar ýmist greitt atkvæði nöfnum sem komin eru fram eða stungið upp á öðum.
Ísbúðin opnar samkvæmt áætlun á sunnudag. Einhver bið verður á að hún verði merkt. Til stóð að setja upp nýjar merkingar á húsið í dag og á morgun en því hefur verið frestað þar til nýtt nafn og viðeigandi merki hafa verið staðfest.