Orkumálinn 2024

Skógræktin jákvæðust fyrir heimafólkið

Skógræktarstjóri segist bjartsýnn á að skógrækt geti orðið atvinnugrein sem efli hinar dreifðu byggðir á Íslandi. Vöxtur trjáa hér sé ekki lakari en á svæðum erlendis á sömu breiddargráðu þar sem nytjar af skógi eru aðalatvinnugreinin. Til þess þarf þó stuðning ríkisins til að hjálpa skógræktinni af stað, eða fjárfestingar frá einkaaðilum. Binding kolefnis gæti verið leið til að laða þá að.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali við Þröst Eysteinsson, skógræktarstjóra, í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Ríkisframlög til skógræktar voru skorin verulega niður í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og er skógræktarfólk löngu orðið langeygt eftir að þau nái á ný fyrri hæðum. Þröstur segir vonina hafa glæðst árið 2018 þegar heitið var fjármunum til kolefnisbindingar, en þeir hafi í vaxandi mæli farið í landgræðslu en ekki skógrækt. Þá nýtist aukningin aðeins til gróðursetningar en á sama tíma sé farið fram á aðhald hjá Skógræktinni sem þýðir að fé vantar í rannsóknir, almennan rekstur og grisjun.

Þröstur segir skógrækt njóta velvilja Íslendinga og stjórnmálamanna en samt náist ekki aukið framlag. „Þegar þarf að forgangsraða á fjárlögum verður skógræktin afgangs því hún er ekki mikilvæg efnahagsleg stærð enn. Við erum að reyna að gera skógrækt og úrvinnslu skógarafurða að hagrænum þætti í hinum dreifðu byggðum. Til þess þarf fjárfestingu í öllum þáttum skógarauðlindarinnar, ekki bara gróðursetningunni.“

Skapar störf en ekki heilsársbúsetu á jörðum

Þegar Þröstur er spurður að því hvort hann sjái fyrir sér að skógrækt geti glætt sveitir landsins lífi svarar hann: „Ég sé það ekki fyrir mér eins og margir aðrir, að hægt sé að búa á jörð og vera bara skógarbóndi. Það sem skógurinn hefur umfram kvikfjárrækt er að það þarf hvorki að smala né gefa honum. Það þarf enginn að vera á staðnum og því kemur skógurinn ekki með heilsársbúsetu. Það verður ekki það búsetumynstur sem við erum vön og margir reyna að halda áfram.

Hann kemur hins vegar með möguleika fyrir verktaka að höggva skóg og gera slóðir og fyrir fyrirtæki í úrvinnslu í þéttbýli á landsbyggðinni, svo sem litlar sögunarverksmiðjur. Eftir því sem auðlindin stækkar þá stækka fyrirtækin. Það tekur langan tíma og því lengri sem við erum lengur að fjárfesta í henni.

Við höfum séð stór úrvinnslufyrirtæki verða til á Írlandi og í Skotlandi þar sem byrjað var á skógrækt á sama tíma og hér. Sitkagrenið þar vex á 40 árum í stað 60 hér, en aðalmunurinn er að þar eru fleiri skattgreiðendur á hvern hektara lands og því fljótlegra að gróðursetja til stórrar skógarauðlindar. Það er engin ástæða að halda að hið sama geti ekki gerst hér.

Stundum er gert mikið úr því að einhverjir borgarbúar eða útlendingar kaupi jarðir og búi ekki á þeim. Það skiptir ekki máli í skógræktinni. Það er ekki landeigandinn sem græðir á skógræktinni heldur verktakarnir og úrvinnslumennirnir. Þeir eru heimamenn og því er skógrækt fyrst og fremst jákvæð fyrir heimafólkið.“

Þekkingin skilar betri ákvörðunum

Þröstur segir að náttúrulegar aðstæður á Íslandi, hvorki jarðvegur né veðurfar, eigi að halda aftur af skógrækt hérlendis. Rannsóknir undanfarinna áratuga þýði að nú sé orðin til vitneskja um hvaða tegundir besta best á hvaða svæði hérlendis.

„Við höfum einbeitt okkur að sitkagreini, alaskaösp, stafafuru og Rússalerki. Við notum líka birki í landgræðsluskyni því það er duglegt að sá sér. Það bindur jarðveg og gerir mikið gagn en framleiðir ekki timbur.

Þegar við höfum fundið réttar tegundir, trén eru komin og farin að vaxa, heldur jarðvegurinn uppi góðum vexti. Við vitum að við getum fengið sambærilegan vöxt og á sambærilegri breiddargráðu annars staðar þar sem skógarnytjar eru aðalatvinnugreinin.“

Þróa vottunarkerfi fyrir kolefnisbindingu

Ef illa gengur að fá ríkið til að leggja fram fjármagn til skógræktar er eðlilegt að horfa til einkamarkaðarins. Gallinn er hins vegar sá að fjárfestingin er lengi að skila sér úr timburskógum. Eftirspurn eftir kolefnisbindingu gæti hins vegar opnað nýjar leiðir.

Skógræktin hefur skoðað þær og hratt í lok síðasta árs af stað verkefni sem kallast Skógarkolefni. Með því er ætlunin að koma á fót viðurkenndu ferli vottunar á bindingu kolefnis með nýskógrækt. Þar með verður í fyrsta sinn á Íslandi hægt að versla með vottaðar einingar kolefnis sem bundið er með nýskógrækt.

„Ef við ætlum að njóta hagræns ágóða af skógrækt verður auðlindin að ná ákveðinni stærð áður en hún stendur undir þeirri fjárfestingu sem þarf til að vinna úr henni. Það hafa verið gerðar tilraunir hér og þar en þeir sem hafa reynt rekast á að auðlindin er lítil sem þýðir að allt er óhagkvæmt.

Hagrænn ágóði skógræktar byggist á magni en öll keðjan er óhagkvæm því það fer svo lítið í gegnum hana. Skógareigandinn fær ekki mikið fyrir hvert tré en mögulega eitthvað fyrir umhirðu. Hann fær ekkert fyrir að sitja í sófanum og bíða eftir að skógurinn vaxi, að minnsta kosti ekki fyrr en viðurkennt verður að borga fyrir bindingu kolefnis. Að fjármagna skógrækt með einkafjármagni leiðir kannski til annarra áherslna. Kolefnisbindingin gefur þann möguleika að fjárfestingin skili sér tiltölulega fljótt til baka.

Áður þurfti að bíða í 30-40 ár eftir fyrstu grisjun og hún stendur ekki undir sér. Enginn hefur svo þolinmótt fjármagn nema ríkið. Ef tiltölulega fá ár líða uns staðfest er að skógurinn fer vaxandi og fyrir liggja góð gögn um hvað hann er líklegur til að binda er hugsanlegt að selja þær einingar. Þá byrjar fjárfestingin að ávaxta sig nokkuð fljótt.

Við erum að vinna með þetta og höfum birt frumútgáfu að vottun á kolefnisbindingu nýskógræktar. Vottunin er forsenda þess að stórir aðilar, fjárfestar, fyrirtæki eða einstaklingar, sem þurfa að kolefnisjafna sig eftir einhverjum kerfum, bæði hér á Íslandi og erlendis, séu tilbúnir að fjárfesta í skógrækt. Við þurfum að prófa kerfið og munum rekast á eitt og annað sem þarf að vera öðruvísi en skógræktin er ein leiðin til kolefnisjöfnunar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.