Skortur á íbúðum og skrifstofum á Djúpavogi

Sveitarstjóri Djúpavogshrepps segir húsnæðisskort vera orðinn í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið reynir að liðsinna þeim sem þangað vilja flytja til að starfa eða byggja upp atvinnu.


Þetta kemur fram í ávarpi Gauta Jóhannessonar, sveitarstjóra, í nýjasta tölublaði Bóndavörðunnar, fréttablaðs sveitarfélagsins.

„Eitt af þeim verkefnum sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir er að liðsinna fólki varðandi húsnæðismál sem hingað vill flytja.

Er þar hvort tveggja um að ræða ungt fólk sem vill flytja „heim“ og fólk sem hefur ekki búið hér áður en hefur fengið hér starf, hefur hrifist af náttúrufegurðinni, hugmyndafræði Cittaslow eða öðru.

Það dylst engum að skortur á hvort tveggja skrifstofu- og íbúðarhúsnæði er farinn að há sveitarfélaginu.“

Hreppurinn hefur reynt að bregðast við spurn eftir skrifstofuhúsnæði með að innrétta miðhæð svokallaðs Faktorshúss sem verið er að endurbyggja. Erfiðra er að leysa íbúðarhúsnæðið.

„Sveitarstjórn skoðar nú með hvaða hætti yrði hægt að létta undir með húsbyggjendum um leið og beðið er boðaðrar löggjafar um húsnæðismál og hvaða breytingar hún hefur í för með sér.“

Í ávarpinu kemur Gauti inn á atvinnulíf staðarins sem hann segir bjartara yfir en um síðustu áramót. Nýr Búlandstindur tók um það leiti eftir brotthvarf Vísis og starfa nú þar rúmlega 30 manns.

„Það er því ljóst að svartsýnustu spár hafa ekki gengið eftir hvað varðar fiskveiðar og vinnslu – sem betur fer.“

Hann fagnar því einnig að norskt fyrirtæki hafi keypt sig inn í Fiskeldi Austfjarða sem er með eldi í Berufirði. „Þetta án án efa eftir að verða mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið í sveitarfélaginu og sé litið til þeirra áhrifa sem uppbygging fiskeldis hefur haft í för með sér, til dæmis á Vestfjörðum, er full ástæða til bjartsýni.“

Gauti hefur hins vegar áhyggjur af rekstrarumhverfi Djúpavogshrepps. Landanir voru þar minni síðasta haust en árin á undan en um 75% tekna hafnarinnar koma inn á síðustu fjórum mánuðum ársins.

Þá hafa nýgerðir kjarasamningar einnig töluverð áhrif á fjárhag sveitarfélagsins. Gauti segir að við gerð fjárhagsáætlunar hafi verið lögð áhersla á að verja grunnþjónustu en framkvæmdum og fjárfestingum verði haldið í algjöru lágmarki.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.