Skoska leiðin í gildi 1. september

Íbúum ákveðinna svæða á landsbyggðinni mun í haust bjóðast niðurgreiðsla á flugferðum til og frá Reykjavík. Stefnt er að því að útfærslan verði prufukeyrð í ár og komi til fullrar framkvæmdar á því næsta.

Niðurgreiðslan, sem kallast gjarnan skoska leiðin þangað sem fyrirmynd hennar er sótt, var staðfest í samgönguáætlun sem Alþingi samþykkti í byrjun síðustu viku.

Hún hefur hins vegar legið fyrir í nokkurn tíma og fulltrúar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Vegagerðarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og flugfélaganna unnið að nánari útfærslu og tæknilegum lausnum.

Markmið leiðarinnar er að jafna aðstöðumun íbúa sem búa úti á landi að grunn- og sérfræðiþjónustu sem að mestu er staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Hún er því ætluð landssvæðum eru annað hvort það fjarri höfuðborgarsvæðinu eða vegasamband með þeim hætti að erfitt eða mjög tímafrekt er að keyra til höfuðborgarsvæðisins.

Rétt á niðurgreiðslunni eiga íbúar á viðkomandi svæðum sem þurfa að greiða fyrir ferðir sem farnar eru í einkaerindum. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er verið að ganga frá nánari útfærslu, til dæmis hvar mörkin verða dregin í fjarlægðum. Líklegt sé þó að miðað verði við mörk sem þegar eru til staðar, svo sem póstnúmer.

Miðað er við tiltekinn fjölda ferða á mann á ári og ákveðinn hámarkskostnað á ferð eða að ríkið greiði 40% miðaverðs.

Stefnt er að því að skoska leiðin komi til framkvæmda þann 1. september fái hver og einn eina ferð, fram og til baka í ár. Þær verði síðan þrjár á ári frá næstu áramótum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.