Skrifað undir samstarf um Öruggara Austurland
Síðasta miðvikudag var skrifað undir samstarfsyfirlýsingu vegna verkefnisins Öruggara Austurland. Um er að ræða fyrsta svæðisbundna samráðið um afbrotavarnir hérlendis. Samhliða var haldið málþing um stöðuna á Austurlandi. Rannsóknir gefa til kynna að umfang ofbeldisbrota í fjórðungnum sé sambærilegt og annars staðar en aðeins hluti málanna sé tilkynntur lögreglu eða öðrum yfirvöldum.„Þetta er grunnurinn að þéttara samstarfi. Tilgangurinn er að ná fólki saman, vita hvað hver er að gera og fá hugmyndir að frekara samstarfi,“ segir Margrét María Sigurðardóttir, lögreglustjóri á Austurlandi.
Að samstarfinu koma embætti lögreglustjóra og sýslumann, öll sveitarfélögin fjögur ásamt Austurbrú og Sambandi sveitarfélaga, Heilbrigðisstofnun Austurlands, framhaldsskólanir, Austurlandsprófastsdæmi og Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands.
Samstarfið felur meðal annars í sér forvarnir gegn afbrotum. Þegar hafa verið stigin skref í þá átt, til dæmis með verklagi lögreglu gegn heimilisofbeldi þar sem unnið er með félagsþjónustu sveitarfélaga og barnavernd, þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldi, samvinnu um öruggara skemmtanalíf án ofbeldi og forvarnir gegn áfengis- og vímuefnaneyslu barna og ungmenna.
Með Öruggara Austurlandi er stefnt að aukinni samstari milli lykilaðila, meðal annars að reyna að greina þróun í samfélaginu eða hegðun sem síðan getur leitt til afbrota þannig hægt sé að grípa inn í einstaklingsbundið eða með stærri almannaheillaverkefnum áður en til þeirra kemur. Talað er um samfélagslöggæslu þar sem tengsl milli lögreglu og nærsamfélaga eru styrkt, til dæmis með sameiginlegum viðburðum, fundum eða heimsóknum.
Ekki færri afbrot á Austurlandi
Samstarfinu var hleypt af stokkunum með málþingi í Valaskjálf þar sem rætt var um stöðuna á Austurlandi í dag. Þar var meðal annars farið yfir tölfræði úr rannsóknum, með áherslu á börn og ofbeldi. Út úr tölfræði yfir tilkynnt brot til lögreglunnar á Austurlandi má lesa að almennt ofbeldi sem og heimilisofbeldi hafi vaxið frá upphafi Covid-faraldursins. Almennt ofbeldi er þó ekki tíðara en til dæmis á árunum 2008-10. Tíðni kynferðisofbeldis eða endurtekins ofbeldis er svipað yfir allt tímabilið, 2007-21.
Þá var farið yfir tölfræði úr þolendakönnun lögreglunnar sem og könnunum um líðan barna og ungmenna. Almennt gefa þær tölur sem fyrir liggja ekki tilefni til að ætla að minna sé um ofbeldisbrot á Austurlandi heldur en á landsvísu. Þau virðist hins vegar síður tilkynnt til lögreglu eða félagsmálayfirvalda og þá oft ekki fyrr en langt er um liðið.
„Það kom fram í umræðum að fólk leitar sér seint aðstoðar. Þess vegna ræðum við hvað hægt er að gera til að fólk geri það fyrr. Stundum veit fólk ekki hvert það eigi að leita. Það þarf því að bæta úr upplýsingum um hvert fólk geti snúið sér,“ segir Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri aðgerða gegn ofbeldi hjá ríkislögreglustjóra.