Skrifaði bréf til sjálfar sín úr framtíðinni

„Þetta var mjög gaman. Ég var alls ekki spennt fyrir þessu og bjóst ekki við miklu, en svo var þetta bara mjög skemmtilegt,“ segir Dagný Erla Gunnarsdóttir, nemandi í 9. bekk í Egilsstaðaskóla, um þátttöku sína í verkefninu Listalest Listaháskóla Íslands sem haldið var undir formerkjum BRAS, menningarhátíðar barna og ungmenna á Austurlandi.


BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, er í fullum gangi. Listalest Listaháskóla Íslands hélt fimm þverfaglegar vinnusmiðjur fyrir unglinga í 8., 9. og 10. bekk í grunnskólum Fljótsdalshéraðs; Egilsstaðaskóla, Fellaskóla og Brúarásskóla í vikunni. Kennarar voru allt nemendur í listkennsludeild Listaháskóla Íslands og áhersla var lögð á samruna listgreina, en afraksturinn var sýndur í Sláturhúsinu í gær.

Verkefnið er á vegum Listaháskóla Íslands og verkefnisins List fyrir alla sem er á forræði Mennta- og menningarmálaráðuneytis, en þar er Elva Lilja Gísladóttir sem er verkefnastjóri.

„BRAS óskaði eftir því að fá okkur til samstarfs, en megin tilgangur verkefnisins List fyrir alla er velja og miðla listviðburðum um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.

Í þessu verkefni leiðum við saman Listaháskólann og Fljótsdalshérað. Leiðbeinendur eru allt starfandi listamenn sem eiga það sameiginlegt að vera að ná sér í kennararéttindi. Við erum í samvinnu við grunnskólanana, Egilsstaðaskóla, Fellaskóla og Brúarásskóla, kennarar í þeim skólunum vinna þetta með okkur,“ segir Elva Lilja, en á sýningunni mátti sjá dansverk, andlitsgrímur úr gipsi og margt fleira.

„Öll börn eiga rétt á að fá að kynnast öllum listgreinum og skapandi starfi. Þetta hefur stundum orðið afgangsstærð inn í skólastarfinu, en að okkar mati á það alls ekki að vera svoleiðis. Við verðum að horfa í það að í framtíðinni erum við að fara að sjá mjög breytt landslag og starfsheiti sem við vitum ekki einu sinni hver verða þannig að við þurfum að opna þessa skapandi hugsun og hvaða möguleikar eru í boði.“

„BRAS er mjög vel unnin hátíð“
Adda Rúna Valdimarsdóttir er sérfæðingur á skrifstofu menningarmála hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

„Barnamenningarhátíð í Reykjavík var fyrst haldin 2010 og það er mjög ánægjulegt hversu barnamenningarhátíðum er að fjölga á landsvísu. BRAS er mjög vel unnin hátíð og gaman að sjá hvernig hún tengir allt svæðið saman. Það skiptir gríðarlegu máli fyrir mig sem sérfræðing í barnamenningu að sjá hversu faglegt starf er unnið hér, fjórðungurinn býr yfir mörgun góðum húsum og háklassa listamönnum, það er mikil gróska á Austurlandi.“

Adda Rúna segir mikla vitundarvakningu hafa orðið á Íslandi um mikilvægi barnamenningar. „Það sem BRAS gerir svo vel er að hún er með menningu fyrir börn, þar sem þau njóta menningar. Einnig með menningu með börnum, þar sem þau eru þátttakendur í smiðjum eins og hérna, en það er mjög gott flæði í dagskránni.“

BRAS er bara rétt að byrja en mikið verður um að vera allan mánuðinn. 


„Gaman að hugsa hvernig ég verð í framtíðinni“
Dagný Erla tók þátt í smiðju þar sem þátttakendur gerðu andlitsgrímu úr gipsi. Einnig áttu þeir að ímynda sér líf sitt í framtíðinni og skrifa bréf úr henni til sjálfrar sín í dag.

Unglingastigi í skólunum þremur var blandað saman og skipt niður í hópa að eigin vali. Hvað þótti Dagnýju Erlu lærdómsríkast? „Bæði að læra að gera grímu af andlitinu á mér og einnig gaman að hugsa hvernig ég verð í framtíðinni, hvað ég mun eiga mörg börn og við hvað mig langar að starfa.“

Dagný Erla segir það hafa verið undarlega tilfinningu að halda opna sýningu á verkunum. „Já, það var skrítið fyrst. En það hafa einhverjir áhuga á þessu og geta þá komið og skoðað hvernig unglingastig í grunnskóla setur upp listasýningu, ekki bara alltaf einhverjir frægir.“

Bréf Dagnýjar Erlu
Elsku Dagný. Ég er 73 ára að skrifa til þín Dagný. En, allavega þú ert líka Dagný og við erum sama manneskjan. En, allavega, þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af því að lífið þitt er frábært.

Þú ert awesome amma og átt 16 barnabörn og tvö barnabarnabörn. Þú varst starfandi læknir en hættir 70 ára til þess að vera með manninum þínum á Fiji-eyjum. Þú býrð í þriggja hæða húsi í Bandaríkjunum en ferð reglulega til Íslands til þess að hitta börnin þín fimm, en tvö þeirra búa í Danmörku.

Þú talar íslensku, ensku, dönsku, ítölsku, norsku, sænsku, grísku og frönsku. Þú ert frábær læknir en núna (ásamt því að vera á Fiji) ertu með kvöldvinnu og búinn að vera það í 73 ár, en vissir ekki af því fyrr en þú varst 15 að...vertu tilbúin...þú ert SÚPERMAN. Já, ég sagði það, súperman. Þú mátt ekki segja neinum en það verður aukavinnan þín með lækninum auðvitað.

Kær kveðja, 73 ára Dagný

 

BRAS3 1200

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar