Skriðuklaustur: Rannsókn sem kollvarpar hugmyndum um starfsemi í íslenskum klaustrum
Tíu ára fornleifarannsókn á rústum Skriðuklausturs í Fljótsdal er lokið. Niðurstöðurnar kollvarpa fyrirliggjandi hugmyndum um starfsemi Skriðuklausturs, sem er fyrsta íslenska klaustrið sem grafið er upp í heild sinni, og gefa nýja sýn á íslenskt klausturlíf.
„Við vissum að uppgröfturinn myndi bæta við þekkingu okkar á klausturlífinu en við bjuggumst ekki við að hann breytti sýn okkar á lífið í klaustrinu,“ segir dr. Steinunn Kristjánsdóttir sem stýrði uppgreftrinum.
Til þessa hefur verið talið að klaustrin hérlendis hefðu verið ólík evrópskum klaustrum hvað varðaði byggingarlag og starfsemi en á Skriðuklaustri kom allt annað í ljós. „Þetta er hefðbundið klaustur. Engin tvö klaustur eru eins en þau byggja öll á sama grunni.“
Hjúkrunin aðalstarfið
Þá hafði því svo gott sem verið hafnað að íslensku klaustrin hefðu sinnt samfélagsþjónustu því fyrir því vantaði einfaldlega heimildir. Á Skriðuklaustri virðist hafa verið hlúð að sjúkum.
„Það er augljóst að þarna var rekinn spítali og skírar er ekki hægt að koma að samfélagsþjónustu. Ég vil meira að segja ganga svo langt að segja að þetta líkn og hjúkrun hafi verið aðalstarfið í klaustrinu. Það hafa yfir 150 langveikir sjúklingar verið jarðaðir í kirkjugarðinum á tæplega 60 árum þannig þetta hefur sett svip sinn á starfsemina, fjáröflun og fleira.“
Hjúkrunarstarfsemin rennir enn frekari stoðun um að menn hafi sótt fyrirmyndina að klaustrinu til útlanda. „Öll klaustur í heiminum lögðu áherslu á samfélagsþjónustu, skóla, hjúkrun og fleira. Af hverju ættum við að vera eitthvað öðruvísi? Hverjir aðrir gátu sinnt þessu á miðöldum“ spyr Steinunn.
Vantaði spítala á Austurland
Steinunn telur veraldlegri skýringar útskýra staðarvalið og stofnunina. Fimmtándu og sextándu aldirnar voru aldir hörmunga, pesta, farsótta og náttúruhörmunga. Veiðivatnagosið 1477 lék Austfirðinga grátt. Margir bæir fóru í eyði í kjölfar uppskerubrests og fjárfellis. Eins hafi sárasóttin verið komin til landsins og faraldur að fara af stað.
Í Skálholti var nýr biskup sem lært hafði í Frakklandi og séð þá þjónustu sem klaustrin veittu þar. „Það var mjög brýn þörf fyrir spítala norðan Vatnajökuls því næstu klaustur eru á Kirkjubæjarklaustri í suðri og Munkaþverá í norðri.“
Að mati Steinunnar þarf að rannsaka nánar starfsemi íslensku klaustranna. „Heimildir um íslenska klausturstarfsemi eru afskaplega rýrar. Þær eru nánast engar um starfsemi innan veggja klaustranna en meira um umsvif utan þeirra, kaup og sölu á jörðum og svo framvegis.“
Allar áætlanir stóðust
Byrjað var að grafa um miðjan júní 2002 og lokið í fyrra. Í sumar var klárað að byggja upp svæðið veggina þannig gestir geta rölt um svæðið og upplifað herbergjaskipunina. Steinunn er stolt af svæðinu í dag. „Ég gerði mér aldrei vonir um að þetta yrði svona flott, að grunnformið yrði endurgert og merkt með skiltum.“
Endalok rannsóknarinnar voru mörkuð með málþingi og útgáfu bókar Steinunnar um sögu klaustursins á Skriðu sem byggist á rannsókninni. Frekari eftirvinnsla er enn eftir auk þess sem Steinunn telur enn efni í frekari rannsóknir á svæðinu. Þegar menn byrjuðu að grafa var stefnt á að öllu yrði lokið á 500 ára vígsluafmæli klausturkirkjunnar sem er í ár. Það gekk eftir.
„Það sem stendur upp úr er hversu vel þetta allt gekk. Mér finnst ótrúlegt að tíu ára áætlunin, sem við gerðum áður en við byrjuðum skyldu standast, fjárhags- og framkvæmdalega þrátt fyrri hrun og allt. Þegar við gerðum áætlunina reiknuðum við með 1200 fermetra byggingum, sem var ríflegt, en þær voru 1500 fermetrar. Við reiknuðum heldur ekki með gröfunum. Það kom miklu meira út úr uppgreftrinum heldur en við bjuggumst við eða þorðum að vona.“