Sýktum gripum verði slátrað

egilsstadabylid.jpg
Matvælastofnun hefur sent atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu tillögu um að öllum gripum sem greinst hafi með smitandi barkabólgu verði slátrað. Ákvörðun um frekari niðurskurð verði síðan tekin á grundvelli rannsókna sem nú standa yfir.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem stofnunin sendi frá sér í gær. Síðan mótefni gegn veirunni greindist óvænt upp á Egilsstöðum á Völlum í september hafa sýni verið tekin á öllum kúabúum á landinu í leit að vísbendingum um herpesveiruna.

„Engin mótefni fundust á öðrum en þeim tveimur búum sem sýkingin hafði þegar greinst á, það er að segja Egilsstöðum og Fljótsbakka á Fljótsdalshéraði. 

Sýni voru einnig tekin úr öllum gripum í Hrísey þar sem enn eru gripir sem að stofni til eru frá innflutningi á sæði og fósturvísum. Engin mótefni fundust í þeim. Jafnframt voru sýni tekin úr öllum nautum á Nautastöð BÍ á Hesti og reyndust þau einnig öll neikvæð. 

Sæði úr nauti frá Egilsstöðum sem verið hafði í Nautastöðinni var rannsakað ásamt sæði úr fleiri nautum. Öll sæðissýnin reyndust neikvæð.“

Í byrjun vikunnar voru tekin blóðsýni úr öllum gripum eldri en sex mánaða á bæjunum tveimur á Héraði. Niðurstöður þeirra rannsókna liggja væntanlega fyrir í næstu viku.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar