Skugganefju talið hafa rekið á land í Reyðarfirði

Mögulegt er að tvær skugganefjur, hvalategund sem er fremur sjaldséð hér við land, hafi rekið upp á austfirskar strendur í vikunni. Óvenju marga hvali hefur rekið á austfirskar fjörur á árinu. Ekki er vitað hvað veldur.

Tilkynnt hefur verið um þrjá hvalreka á Austfjörðum í vikunni. Í byrjun vikunnar rak hræ sem virðist vera af skugganefju á land við Sigmundarhús, utarlega í norðanverðum Reyðarfirði og mögulega aðra sömu tegundar á Barðsnesi í Norðfirði.

Í dag var svo tilkynnt um að andanefjuhræ hefði rekið á land í Berufirði. Þar með eru hvalrekarnir á Austfjörðum á árinu orðnir níu. Það getur reyndar brenglað þær tölur ef sama hræinu skolar út á einum stað áður en það rekur upp á öðrum. Gísli bendir þar á að ljóst sé að andanefjan í Berufirði sé löngu dauð.

Beðið staðfestingar á hvalnum við Barðsnes

Greining á hvölunum tveimur sem komu í byrjun vikunnar hefur verið aðeins á reiki. Gísli Víkingsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir nokkuð ljóst að um skugganefju sé að ræða í Reyðarfirði en bíður eftir betri myndum af hvalnum við Barðsnesið.

Skugganefjur hefur sjaldnar en tíu sinnum rekið á íslenskar strendur, samkvæmt skráðum heimildum. Almennt er lítið vitað um skugganefjur, til dæmis stofnstærð, þar sem tegundin heldur sig aðallega úti á rúmsjó og kafar lengi og mikið. „Þær eru að minnsta kosti mun sjaldgæfari en andanefjur,“ segir Gísli.

Óvenju margir hvalrekar

Einn staðfestur reki skugganefju var staðfestur fyrr í sumar, á Austurfjöru við Höfn í Hornafirði. Alls eru hvalrekar á svæðinu frá Vopnafirði til Hornafjarðar orðnir níu á árinu, sem telst óvenju mikið. Um er að ræða fimm andanefjur, einn hnúfubak og trúlega þrjár skugganefjur. „Þetta er meira en við höfum heyrt af áður,“ segir Gísli.

Aðspurður svarar hann að erfitt sé að segja til um ástæður. Ástand hræjanna sé misjafnt þegar þau finnast þannig útilokað getur verið að greina dánarorsök. Ýmislegt getur hins vegar haft áhrif á hvalina í hafinu.

„Andanefjur og skugganefjur eru af svínhvalaætt og það hefur oft verið talið að þær séu viðkvæmar fyrir hljóðmengun í hafi, einkum sprengingum frá heræfingum eða leit að olíu og gasi.

Síðan geta fæðuskilyrði og annað valdið því að þær leiti upp á land. Landgrunnið er ekki þeirra búsvæði og ef þær á annað borð þvælast upp á grunnsævi er ekki óalgegnt að þær endi uppi á þurru landi. Þær nota bergmálstækni til að rata, senda frá sér hljóðmerki og fá endurkast til baka, og ef þær fá ekki það endurkast sem þær eru vanar villast þær af leið.Síðan geta komið upp sjúkdómar og fleira.“

Starfsfólk Náttúrustofu Austurlands tók sýni úr hvölunum. Eftir það er það í höndum viðkomandi sveitarfélags hvað gert verður við hræin.

Samkvæmt lögum á að tilkynna hvalreka til lögreglu sem síðan kemur boðunum áfram til viðkomandi stofnana. Gísli segir Hafrannsóknastofnun hafa borist tugir tilkynninga um hvalreka í ár en líklega verði aldrei hægt að láta vita um alla.

Hvalrekar á Austfjörðum 2018 samkvæmt skrá Hafrannsóknastofnunar:

Andanefja við Vattarnes í Reyðarfirði í mars.
Andanefna við Selsstaði í Seyðisfirði í mars.
Andanefja á Héraðssandi
Hnúfubakur við Höfn í Hornafirði í maí
Andanefja við Þvottárskriður í júlí
Skugganefja við Höfn í Hornafirði í júlí
Skugganefja við Sigmundarhús í Reyðarfirði í ágúst
Skugganefja eða andanefja við Barðsnes í Norðfirð í ágúst
Andanefja í Berufirði í ágúst.

Skugganefjuhræið í Reyðarfirði. Mynd. Náttúrustofa Austurlands/Guðrún Óskarsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.