Skuldir lækka og framkvæmdir aukast

Nýtt íþróttahús á Egilsstöðum verður tekið í notkun næsta haust, 2020, og nýr leikskóli verður byggður í Fellabæ 2021. Þetta kom fram á opnum borgarafundi um fjárhagsáætlun Fljótsdalshéraðs, sem kynnt var í gær.

Björn Ingimarsson, bæjarstóri, segir að skuldir Fljótsdalshéraðs hafi lækkað undanfarin ár og muni lækka enn frekar á næstu árum, samhliða því að farið verður í ýmsar framkvæmdir.

Hann segir jafnframt að sameining sveitarfélaganna fjögurra, sem samþykkt var fyrir skömmu, komi ekki til með að hafa áhrif á þær áætlanir sem settar eru fram í fjárhagsáætlun Fljótsdalshéraðs, enda hafi þær verið kynntar ítarlega í samningaferlinu. Það muni þó eðli málsins samkvæmt verða á valdi stjórnar hins nýja sveitarfélags að taka ákvarðanir um breytingar ef þær þyki nauðsynlegar.

Í kynningunni kemur fram að bil á milli veltufjár frá rekstri og afborgana er á góðu róli, samkvæmt lögbundnum viðmiðum, og muni frekar aukast á næstu árum. Gert er ráð fyrir að skatttekjur muni hækka um 192 milljónir milli áranna 2019 og 2020, útsvarstekjur muni hækka um 6,5% miðað við útkomuspá 2019 og fasteignaskattur muni hækka um 8,9%.

Horfa má á kynninguna á Facebook síðu Fljótsdalshéraðs HÉR.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar