Skúta brann á Seyðisfirði
Slökkvilið Múlaþings var kallað út á Seyðisfirði upp úr klukkan tíu í kvöld þar sem skútan Stephima var alelda við Bæjarbryggjuna.Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkvistjóri, segir slökkviliðið hafa verið komið á vettvang örfáum mínútum síðar. Skútan var þá alelda við Bæjarbryggjuna, neðan við gömlu bæjarskrifstofurnar. Skútan var mannlaus þegar eldurinn kom upp.
Stuttan tíma tók að slökkva mesta eldinn. Slökkvilið var þó enn á svæðinu um klukkutíma síðar að slökkva í glæðum.
„Það er erfitt að eiga við eld í svona trefjabátum. Við slökktum í með froðu. Það er ekki mikill eldur en þetta varasamt og erfitt, þetta er skemmtibátur með miklu dóti í og mörgum litlum rýmum,“ segir Haraldur Geir.
Til stendur að hífa skútuna upp á bryggju í kvöld til að koma í veg fyrir mengun. Skútan er erlend en kom til Seyðisfjarðar frá Færeyjum um miðjan maí. Ljóst er að hún er mjög illa farinn. Eldsupptök eru óljós.
Myndir: Daníel Örn Gíslason og Zuhaitz Akizu