Skýrir stéttskipting námsárangur frekar en búseta?

Þjóðfélagsleg staða virðist skýra betur árangur íslenskra nemenda í PISA-könnunum heldur en búseta þeirra samkvæmt nýrri íslenskri rannsókn. Nemendur á landsbyggðinni, þar með talið Austurlands, hafa komið töluvert lakar út úr könnununum heldur en þeir sem búa í landsbyggðinni.

PISA-könnunin er lögð fyrir á þriggja ára fresti í aðildarríkjum OECD og á að kanna lesskilning og læsi eða færni 15 ára nemenda í stærðfræði og náttúruvísindum.

Könnunin var síðast lögð fyrir árið 2018 og voru niðurstöður hennar kynntar í byrjun desember. Þegar horft er yfir könnunina kemur í ljós að árangur nemenda í Reykjavík og nágrenni er umtalsvert betri heldur en þeirra sem búsettir eru annars staðar.

Bættur árangur eystra

Austfirðingar virðast þó getað nokkuð vel við una í samanburðinum við aðra landshluta, þótt þeir standi höfuðborginni að baki. Þannig mælist lesskilningur austfirskra nemenda hæstur þegar horft er til landshlutanna. Í fjórðungnum stendur skilningurinn í stað frá síðustu könnun á meðan hann er á niðurleið annars staðar, líkt og á landsvísu.

Eftir Pisa-kannanir síðustu ára hefur verið reynt að grípa til aðgerða til að efla lesskilning. Þannig hafa austfirskir skólar tekið upp aðferðafræði sem kallast Byrjendalæsi og þróuð er hjá Háskólanum á Akureyri.

Þegar horft er til læsis í stærðfræði er árangur á Austurlandi sá næst lægsti á landinu en þó á réttri leið samanborið við árin 2012 og 15. Staðan í náttúruvísindum er ágæt, samanborið við aðra landshluta. Færni í þeim fer þó hrakandi og á það í takt við þróunina á landsvísu. Heilt yfir kemur Ísland illa út í hinum alþjóðlega samanburði.

Æskilegt að greina niðurstöðurnar með tilliti til þjóðfélagslegrar stöðu

En það kann að vera að munurinn í prófunum skýrist frekar af þjóðfélagslegri stöðu, svo sem menntun foreldra, heldur en búsetu. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Þorláks Axels Jónssonar, aðjúnkts við Háskólann á Akureyri, en niðurstöður hennar eru birtar í nýjasta hefti Tímarits um uppeldi og menntun.

Þorlákur rekur þar að bæði Pisa-kannanir, sem og fleiri kannanir á landsvísu, hafi áratugum saman bent til þess að nemendur á landsbyggðinni standi þeim sem búa í og næst höfuðborginni að baki. Rannsókn Þorláks bendir hins vegar til að þegar tekið er mið af þjóðfélagslegri stöðu, efnahagslegri, félagslegri og menningarlegri stöðu sem sé lakari á landsbyggðinni, jafnist leikurinn. Í afmörkuðum tilfellum verði árangurinn á landsbyggðinni jafnvel betri í stað þess að vera stöðugt lakari eins og áður.

„Verulegur munur er á þjóðfélagsstöðu nemenda á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu, félagsleg samsetning svæðanna er ekki sú sama,“ ritar Þorlákur. Niðurstöðurnar eru í samræmi við kannanir, sem Þorlákur byggir rannsóknarspurningar sínar á, frá öðrum OECD ríkjum þar sem Pisa-kannanirnar eru einnig lagðar fyrir

Hann telur að taka þurfi aukið tillit til stéttskiptingar þegar yfirvöld menntamála greini námsárangur og móti sína stefnu. „Stjórnsýsla menntamála hefur gengið út frá kyni og búsetu sem lykilbreytum í viðleitni sinni til þess að lýsa því félagslega samhengi sem skólastarf fer fram í, en ekki horft til þjóðfélagsstöðu í því efni. Æskilegt væri að rannsaka skólastarf á landsbyggðunum með frekari greiningu á gögnum PISA að teknu tilliti til mismunandi félagslegs bakgrunns svæða og grunnskóla þar.“

Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar