Slæm tíð tefur nýtt þjónustuhús við Hengifoss

„Tíðin hefur verið með þeim hætti að verkið hefur gengið seint og nokkuð ljóst að áætluð verklok seint í júnímánuði ganga ekki eftir,“ segir Helgi Gíslason, sveitarstjóri í Fljótsdal.

Þar vísar sveitarstjórinn til byggingar sérstaks þjónustuhúss fyrir neðan hinn vinsæla ferðamannastað Hengifoss en samningar voru undirritaðir við verktaka vegna byggingar þess á síðasta ári. Þar komu að annars vegar MVA sem sér um steypuvinnu og veggeiningar og hins vegar Austurbygg sem tekur að sér lokafrágang. Kváðu samningar á um að verkinu yrði lokið í síðasta lagi þann 23. júní næstkomandi og þannig næðist að taka miðstöðina í notkun fyrir mesta ferðamannastrauminn í júlí og ágúst.

Nú er loku fyrir skotið að það markmið náist og þar helst slæmri tíð um að ræða en tafir hafa einnig orðið á framleiðslu steypueininga og þar um að kenna hversu útlínur hússins eru að stóru leyti bogadregnar.

Sjálfur metur Helgi stöðuna þannig á þessu stigi að það væri góður árangur ef það næst að ljúka við gerð hússins fyrir næsta haust.

„Núna er ekkert annað hægt að gera en bíða eftir betri tíð. Það öllu vitlegra að fara sér hægt í þessu og gera þetta vel fremur en flýta sér og lenda þá hugsanlega í endalausum vandamálum þegar fram líða stundir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar