Íslandspóstur vill loka póstafgreiðslu á Mjóafirði

mjoifjordur_web.jpg
Íslandspóstur hyggst loka póstafgreiðslu sinni á Mjóafirði í sparnaðarskyni. Of lítil umsvif hafa verið þartil að fyrirtækið telji sig geta haldið úti þjónustunni. Landpóstur á að þjóna Mjófirðingum í staðinn. Bæjarfulltrúar í Fjarðabyggð segja lokunina enn eitt dæmið um hvernig þjónusta við landsbyggðina sé skert.

Ósk Íslandspóst um að breyta fyrirkomulaginu á póstþjónustunni á Mjóafirði er til meðferðar hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Fyrirtækið hefur ákveðið að loka póstafgreiðslunni þar. Uppsagnarfresturinn rennur út 31. júlí. Húsnæði póstsins hefur verið sagt upp frá og með 31. maí.

„Í dag erum við með tvöfalt kerfi á Mjóafirði, landpóst og póstafgreiðslu. Það sem við viljum að verði áfram er landpósturinn, sambærileg þjónusta og er í sveitum og minni bæjarfélögum. Landpóstur dreifir skráðum sendingum á öll heimili og fyrirtæki og hægt er að póstleggja hjá honum og í póstkössum,“ segir Ágústa Hrund Steinarsdóttir, talsmaður Íslandspósts.

„Þarna búa um 30 manns, afgreiðslutími póstafgreiðslunnar hefur verið 2:45 klst. á dag og er hún starfrækt í heimahúsi. Landpóstur getur vel þjónað þessu svæði, ekki verður um neina þjónustuskerðingu að ræða. Meðalfjöldi bréfa sem hafa verið að berast frá Mjóafirði eru oftast innan við 10 stykki og fáir pakkar sendir þaðan.“

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, gagnrýndi ákvörðun póstsins á síðasta bæjarstjórnarfundi. „Þetta áframhald á þeirri furðulegu vegferð hefur orðið með hinu skelfilega ohf.-formi sem öllu var troðið inn í fyrir nokkrum árum. Með henni geta framkvæmdastjórar skotið fyrir sig öðrum sjónarmiðum en þjónustu við íbúa. Ekkert hefur gengið til baka af þessari væðingu þrátt fyrir yfirlýsingar þingmanna um annað á fundi Stöðvarfirði árið 2010,“ sagði Jón Björn og bætti því við að Bretar héldu enn úti póstkerfi í ríkiseigu í almannaþágu.

Tap af rekstri Íslandspósts árið 2011 var 144 milljónir króna. Bréfum undir 50 grömmum á þyngd hefur fækkað um 30% frá árinu 2006 og spáð er áframhaldandi fækkun. Fyrirtækið hefur lokað 20 pósthúsum frá árinu 1998 og farið í samstarf við 34 aðila um póstþjónustu á ákveðnum svæðum. Íslandspóstur er ekki ríkisstyrkt fyrrtæki. Áætlað er að afnema einkarétt af póstþjónustu í janúar 2013. Íslandspóstur vísar til þess að fyrirtækið bjóði lægsta almenna burðargjald fyrir bréf á Norðurlöndunum þrátt fyrir að Íslands sé afar strjálbýlt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar