Smáframleiðendur matvæla stofna með sér samtök
Stofnfundur félags smáframleiðenda matvæla verður haldinn í næstu viku. Félagsskapurinn er opinn framleiðendum af öllu landinu. Ráðgjafi segir eftirspurn eftir vöru framleiðendanna hafa stóraukist á stuttum tíma.Starfsemi smáframleiðenda hefur eflst að undanförnu, meðal annars með verkefni á vegum Matarauðs Íslands síðustu tvö ár.
Oddný Anna Björnsdóttir, ráðgjafi og bóndi í Gautavík í Berufirði, hefur unnið að ýmsum verkefnum fyrir Matarauðinn. Hún segir smáframleiðendum matvæla fjölga stöðugt í landinu.
„Þeir eru að verða sífellt sýnilegri og fyrirferðameiri á markaði og um leið hafi eftirspurn eftir slíkum matvælum stóraukist.
Því er kominn tími til að þeir sameinist í einu félagi sem vinni að hagsmunamálum þeirra á ólíkum sviðum, sé opinber málsvari þeirra og stuðli að framförum í málefnum sem þá varðar.“
Stofnfundurinn verður haldinn í húsakynnum Samtaka iðnaðarins að Borgartúni 35 í Reykjavík frá klukkan 13-15 þriðjudaginn 3. september. Þótt fundurinn sé haldinn í Reykjavík er félagsskapurinn opinn framleiðendum af öllu landinu og boðið verður upp á að taka þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.