Síminn leggur ljósnet á alla þéttbýlisstaði á Austurlandi nema Borgarfjörð
Síminn ætlar að leggja ljósnet á alla þéttbýlisstaði Austurlands í ár nema Borgarfjörð. Borgfirðingar taka því illa og telja sig vera skilda útundan. Fyrirtækið segir stöðunum forgangsraðað þannig að fyrst séu teknir þeir staðir sem fleyti flestum áfram og hafi mest áhrif á þjóðarbúið í heild.
Síminn tilkynnti í byrjun síðustu viku að til stæði að bæta 53 nýjum stöðum í ljósnet sitt á árinu. Ljósnetið þýðir mun meiri nethraða, traustari tengingar og bætta sjónvarpsþjónustu. Flestir þessara staða sem bætast við í ár eru á Austurlandi en þeir eru: Egilsstaðir, Höfn, Neskaupsstaður, Reyðarfjörður, Eskifjörður, Seyðisfjörður, Vopnafjörður, Fáskrúðsfjörður, Djúpavogur, Bakkafjörður, Stöðvarfjörður, Breiðdalsvík.
Í mörgum þessara staða hefur síðustu misseri verið þrýst á um betri nettengingar. Borgfirðingar eru þar engin undantekning á en þeir eru ekki með í ljósnetsvæðingunni að þessu sinni. Þeir hafa þrýst á um betra netsamband, meðal annars þannig þeir geti nýtt betur aukarásir sjónvarspsins svo sem ólympíurásar RÚV og VOD-þjónustu. Þeir borgi fullt gjald fyrir áskriftina þótt þeir séu ekki með sömu þjónustu og aðrir.
Skemmir uppbyggingu í ferðaþjónustu
„Með þessu móti er verið að mismuna byggðarlögum og þetta setur þau mun aftar þegar kemur að ásættanlegum búsetuskilyrðum, en staður eins og Borgarfjörður þarf virkilega á þessu að halda til þess að geta staðið í baráttunni um að fá nýja íbúa til staðarins og viðhalda byggð í framtíðinni. Þeir sem stjórna þessum málum verða að gera sér grein fyrir því valdi sem þeir hafa með dreifikerfinu þegar kemur að byggðamálum,“ ritar Hafþór Snjólfur Helgason í grein á Borgarfjordureystri.is.
„Það búa kannski ekki margir á Borgarfirði, við gerum okkur alveg grein fyrir því, en munum það að Borgarfjörður er ekki bara dvalarstaður Borgfirðinga. Hingað koma um 25 þúsund ferðamenn á hverju ári og hefur Borgarfjörður verið að festa sig í sessi sem ákjósanlegur og aðlaðandi staður fyrir ferðamenn.
Þessi staða heftir ferðaþjónustuaðila að veita ferðamönnum sömu þjónustu og á öðrum stöðum og skemmir fyrir uppbyggingu í þessum geira, en hann hefur verið mikil lyftistöng fyrir samfélagið undanfarin ár. Auk þess eru fjölmargir sem dvelja í sumarhúsum mánuðum saman og myndu þeir koma með að nýta sér þessa þjónustu, bæði til vinnu og afþreyingar.“
Fyrsta skrefið í ljósnetsvæðingu landsbyggðarinnar
Hjá Símanum fengust þær upplýsingar að átakið í ár væri „fyrsta skrefið í ljósnetsvæðingu á landsbyggðinni.“ Fyrst séu uppfærðar símstöðvar í þéttbýlistöðum áður en farið er í að tengja hverfi sem standa fjær símstöð við ljósnetið. Það flýti fyrir ljósnetsvæðingu í mörgum minni stöðum en ekki er búið að tengja öll hverfi í stærri stöðum. Ekki sé hægt að ljúka ljósnetsvæðingu landsins á árinu.
„En af hverju þessir 53 staðir umfram aðra? Þar ræður valinu: a) stærð staðanna, b) tengingar til þeirra og c) staðsetning símstöðvanna í bæjarfélaginu. Við viljum ná til sem flestra. Það fleytir sem flestum fram veginn og hefur mestu áhrifin á þjóðarbúið í heild. Svona tekst okkur einnig að ljósnetsvæða þúsundir heimila fyrir það fé sem kostaði að tengja jaðra fárra þeirra,“ segir í svari Símans við fyrirspurn Austurfréttar um hvernig standi á forgangsröðuninni.
3G samband á Borgarfjörð í mars
Á móti verður uppsetningu 3G sambands á Borgarfirði flýtt. „Borgfirðingar eru ofarlega í huga okkar hjá Símanum. Þrautseyjan og barátta fyrir bættum fjarskiptum er aðdáunarverð. Við höfðum þegar tilkynnt að við ætlum að tryggja 3G samband á næstu Bræðslu, en nú hefur verið ákveðið að 3G væða byggðina frá byrjun mars.
Síminn vill benda á að 62 þúsund heimili geta nýtt Ljósnetið. Með þessari ákvörðun er stefnt að því að þau verði orðin um 116 þúsund um mitt næsta ár. Uppbyggingin hefur verið hröð. Hún hefur aðeins staðið frá árinu 2009. Þetta eru fyrstu stóru skref Símans á landsbyggðinni ; tekin fyrr en stóð til. Við hjá Símanum erum stolt af þeim.“