Snarvitlaust veður: Skólahaldi víða aflýst
Skólahald fellur víða niður á Austurlandi í dag vegna veðurs. Björgunarsveitir hafa verið á ferðinni til að aðstoða fólk í vandræðum. Ekki er von á að veðrið gangi niður fyrr en aðfaranótt sunnudags.
Öllu skólahaldi hefur verði aflýst í Fellaskóla í dag og 25 ára afmælissamkomu sem halda átti síðdegis. Leikskólarnir Tjarnarskógur og Hádegishöfði á Héraði eru lokaðir sem og Egilsstaðaskóli og Hallormsstaðarskóli. Ekkert er kennt í Menntaskólanum á Egilsstöðum.
Kennsla fellur niður í Grunnskóla Reyðarfjarðar en á vef Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar segir að veður þar sé ekki jafn slæmt og spáð var og því kennt. Á Facebook-síðu Grunnskóla Breiðdalshrepps segir að skóla hafi „alls ekkert verið aflýst vegna veðurs enda blíða á Breiðdalsvík.“
Menningarferð Nemendafélags Verkmenntaskóla Austurlands til Akureyrar, sem fara átti um helgina, hefur verið aflýst. Nemendur sunnan Oddsskarðs hafa ekki komist í skólann í dag en annars er kennt þar því skjól er fyrir norðanáttinni á Norðfirði.
Á Vopnafirði var búið að boða vetrarfrí um helgina í skólanum og því engin kennsla hvort sem er.
Allir fjallvegir á Austurlandi eru ófærir og víða ófært. Fólk hefur ýmist ekki komist til vinnu eða heim úr henni, til dæmis milli Reyðarfjarðar, Norðfjarðar, Seyðisfjarðar og Egilsstaða. Þungfært er og stórhríð víða á láglendi.
Öllu flugi austur hefur verið aflýst. Veðurstofa Íslands hefur gefið út viðvörun þar sem varað er við norðan vonskuveðri á landinu öllu næsta sólarhringinn. Lægja fari upp úr hádegi á morgun en áfram verði þó hvasst fram á kvöld. Spáð er 20-28 m/s vindhraða og vindhviðum allt að 55 m/s við fjöll með talsverðri ofankomu á Austurlandi. Vindhraði mældist 70 m/s í hviðum í Hamarsfirði í gærkvöldi.
Björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði var í nótt kölluð út til að tryggja báta sem voru farnir að losna í höfninni. Á Egilsstöðum eru björgunarsveitin á rúntinum til að aðstoða þá sem eiga í vandræðum.
Í Fjarðabyggð var bæjarstjórnarfundur samkvæmt áætlun í gær. Notast var við fjarfundabúnað. Bæjarstjórinn segir þetta minna enn frekar á nauðsyn nýrra Norðfjarðarganga. Á dagskrá var fyrri umræða um fjárhagsáætlun 2013.
Póstflutningar hafa víða farið úr skorðum á Austurlandi vegna veðursins. Í tilkynningu frá Íslandspósti er beðist velvirðingar á þessu og sagt að póstdreifing fari af stað um leið og veðrinu sloti.
Við hvetjum lesendur til að senda okkur myndir og deila veðursögum sínum á síðu Austurfréttar á Facebook eða heyra í okkur á Twitter undir auðkenninu #ovedur .