Sýndu snarræði og björguðu lífi sjö ára drengs

Guðlaugur Haraldsson og Kristján Vigfússon björguðu á laugardag lífi sjö ára drengs sem varð undir grjóti í Grjótá í Eskifirði. Eftir nokkrar tilraunir náðist drengurinn upp úr ánni, helblár og meðvitundarlaus.

 

Drengurinn, sem er á sjöunda aldursári, var að leika sér við ána ásamt syni Guðlaugs þegar grjót losnaði ofan við ána. Það rann niður gilið og lenti á drengnum sem féll í ána og fékk grjótið ofan á sig. Sonur Guðlaugs kallaði á hjálp og hann losaði drenginn ásamt Kristjáni, sem er afi drengsins sem lenti í ánni.

„Þetta var mjög erfitt og mér fannst við vera mjög lengi að losa hann,“ sagði Guðlaugur í samtali við DV. Hann er ekki viss hve langan tíma tók að losa drenginn. Þegar hann hafi komið á svæðið hafi strákurinn legið fastur í ánni með höfuðið ofan í, ekki getað hreyft sig og aðeins stígvélin staðið upp úr.

Drengurinn missti meðvitund á meðan björgunaraðgerðunum stóð. „Hann var alveg helblár þegar við náðum honum upp. Við tókum hann upp úr ánni og einhvern veginn ýtti ég tvisvar á bringuna á honum, þá kom spýjan út úr honum og hann byrjaði að hósta vatninu upp úr sér og byrjaði að anda almennilega. Hann rankaði við sér eftir smástund og fór að gráta.“

Drengurinn var fyrst fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað en síðan sendur með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Hann þykir hafa sloppið ótrúlega vel miðað við aðstæður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar