Snjóflóðin áminning um að hraða verði vinnu við varnarmannvirki

Forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar segir ánægjulegt að sjá hversu vel snjóflóðavarnamannvirki hafi reynst þegar tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri í gærkvöldi. Á sama tíma séu þau áminning um að ekki verið haldið aftur af fjármagni úr Ofanflóðasjóði og sem fyrst lokið við að verja hættusvæði um allt land.

„Ég var eins og fleiri að ganga til náða þegar ég sá fréttina á RÚV um að snjóflóð hefði fallið. Ég fór ekki að sofa fyrr en ljóst var orðið að ekkert manntjón hefði orðið.

Hugur minn er hjá Vestfirðingum. Maður man vel eftir hörmungaratburðunum þar árið 1995 en ég er líka fæddur í samfélagi sem fór í gegnum svona reynslu og þekki margar björgunarmenn sem fóru vestur á sínum tíma.

Ég gleðst yfir að ekki hafi orðið manntjón, eignatjónið er hægt að bæta. Ég gladdist líka yfir að sjá hversu mikils virði ofanflóðamannvirkin eru. Komandi úr samfélagi sem hefur þessa sögu þá hefur það aldrei verið vafi í mínum huga að svona varnir eru hið eina rétta fyrir svona samfélög.“

Þetta segir Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og íbúi í Neskaupstað. Þann 20. desember árið 1974 fórust tólf einstaklingar þegar snjóflóð féllu á byggðina þar. Þar hafa framkvæmdir við snjóflóðavarnir staðið, með hléum í hartnær 20 ár, en byrjað var á þriðja hluta varnanna í haust.

Gildur sjóður

Framkvæmdirnar eru fjármagnaðar úr Ofanflóðasjóði, sem varð til vorið 1997 með lögum frá Alþingi um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Þau byggja á vinnu og hættumati sem ráðist var í eftir snjóflóðin sem féllu á Flateyri og Súðavík árið 1995.

Þá stóð til að lokið yrði við að verja þéttbýli á mestu hættusvæðum árið 2010. Það náðist ekki og var takmarkið í staðinn sett á 2020. Ljóst er að það takmark næst heldur ekki og hafa sérfræðingar látið hafa eftir sér að áratugi muni taka að ljúka því sem ætlað var.

Sjóðurinn er fjármagnaður með hlutfalli af iðgjaldi brunatrygging fasteigna. Samkvæmt nýjustu endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar um hann, fyrir árið 2016, var handbært fé sjóðsins í lok þess árs 16,7 og jókst um rúma tvo milljarða milli ára. Tekjur sjóðsins það ár voru 3,1 milljarðar, þar af tæpir 800 milljónir í vaxtatekjur. Rekstrarkostnaður var á móti 1,3 milljarðar sem þýðir 1,8 milljarðar í afgang. Veittir voru styrkir til framkvæmda upp á 1,1 milljarð það ár.

Of löng hlé milli framkvæmda

Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð eru meðal þeirra sem gagnrýnt hafa að sjóðurinn safni inneign í stað þess að drífa áfram framkvæmdir. „Það eru nægir fjármunir í sjóðnum en það skortir vilja til að greiða þá út,“ segir Jón Björn.

„Það sem sjóðurinn greiðir út er ekki nóg til að hægt sé að vinna í verkefnum á mörgum stöðum í einu. Við höfum verið að vinna í að verja árfarvegina á Eskifirði en það þarf að gera hlé þar meðan þriðji garðurinn er byggður í Neskaupstað. Það hafa komið of miklar eyður í verkefni, til dæmis hér í Neskaupstað þar sem ár hafa liði milli garða. Síðan eru fleiri svæði, eins og Seyðisfjörður, þar sem mikið verk er eftir óunnið.

Lögum samkvæmt á þessum framkvæmdum að vera að ljúka. Þetta er öryggismál fyrir samfélögin og við höfum tekið ákvarðanir um að verja þau. Maður vill ekki nota hörmungar máli sínu til framdráttar en maður lærir af öllu. Ég vona að þessi áminning sýni okkur að við þurfum að gefa í og við einhendum okkur í verkefnin þannig við þurfum ekki að eyða meiri orku í baráttuna.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar