Snýst um að sameina sveitarfélög, ekki samfélög

Deiliskipulag og staðbundnar gjaldskrár verða verkefni heimastjórna verði Fljótsdalshérað, Djúpavogshreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Borgarfjarðarhreppur sameinuð í eitt sveitarfélag. Sveitarstjóri Djúpavogshrepps segir lagt upp með að heimastjórnirnar hafi raunverulegt vald.

„Í samstarfshópum og íbúafundum var mjög rík krafa um að leitast yrði við að varðveita sérstöðu og styrk hvers byggðarlags og tryggja áhrif heimamanna á nærþjónustuverkefni.

Það hefur vegið mjög þungt í öllu okkar starfi að koma til móts við gagnrýni sem komið hefur upp í ýmsum fjölkjarnasveitarfélögum um jaðarbyggðir,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps.

Kosið verður um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra þann 26. október. Í tillögu um sameininguna er lagt til að í hverju núverandi sveitarfélaga verði komið á fót svokölluðum heimastjórnum sem fjalli um tiltekin málefni á sínu svæði. Slíkt hefur ekki verið gert áður hérlendis og því hafa hugmyndirnar fengið mikla athygli. Gauti kynnti þær á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í gær.

Kjörnum fulltrúum fækkar um 100

Tillögur samstarfsnefndar sveitarfélaganna gera ráð fyrir ellefu manna sveitarstjórn og undir henni verði þrjár nefndir: byggðaráð sem fari með fjármál og stjórnsýslu, fjölskylduráð um verkefni frístunda, fræðslu og fjölskyldna og umhverfisráð um skipulags-, framkvæmda og umhverfismál.

Þar bætist við þriggja manna heimastjórn á hverjum stað. Tveir fulltrúar verða kosnir í óhlutbundinni kosningu samhliða sveitastjórnarkosningum en þriðji aðilinn verði tilnefndur af sveitarstjórn. Honum er ætlað að tryggja tengsl heimastjórnar og sveitastjórnarinnar.

„Ég held að í dag séum við með 142 kjörna fulltrúa í nefndum og ráðum. Þeir verða 45 samkvæmt þessum hugmyndum. Við gerum hins vegar ráð fyrir sömu launagreiðslum. Við viljum bæta starfsumhverfi og kjör kjörinna fulltrúa þannig að hægt verði að sinna þessu sómasamlega. Tilgangur þessar uppsetningar er að til verði einföld og skilvirk stjórnsýsla með sterkri tengingu við hvert byggðarlag í gegnum heimastjórnirnar,“ sagði Gauti.

Ekki bara álit á tyllidögum

Gauti segir að þeir sem fengið kynningu á heimastjórnunum hafi tekið í vel í þær, meðal annars samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Skipulagsstofnun. Til stendur að heimastjórnirnar afgreiði deiliskipulag, haldi utan um menningarmál svo sem umsjón félagsheimila, veita umsagnir um framkvæmdaleyfi og staðbundnar gjaldskrár því þjónustan getur verið mismunandi eftir svæðum, líkt og í leikskólum Fljótsdalshéraðs í dag.

„Markmiðið er raunveruleg valddreifing, ekki bara samráð. Þær eiga ekki bara að ráða hvar séu settir niður blómapottar. Þær eiga að vera valdeflandi fyrir íbúa, þeir fái á tilfinninguna að þeir ráði einhverju en ekki sé bara leitað til þeirra til málamynda á tyllidögum.“

Ekki annað í boði en halda úti þjónustu vegna fjarlægða

Gert er ráð fyrir að nýtt sveitarfélag verði með opna skrifstofu, eða afgreiðslu, í hverju byggðarlaganna. Þær eiga enn frekar að auka tengslin við heimastjórnirnar. Áfram stendur til að vera með skólahald og frístundastarf á stöðunum. „Við höfum á vissan hátt litið á fjarlægðir milli byggðakjarnanna sem styrk. Fjarlægðirnar gera það að verkum að ekki er annað í boði en hafa ákveðna grunnþjónustu til staðar á hverjum stað,“ sagði Gauti.

Hann kvaðst vonast til að til yrði meiri sérhæfing meðal starfsmanna nýs sveitarfélags sem myndi efla þjónustuna. „Markmiðið hefur verið að sameining leiði til bættrar þjónustu og aukins árangur í byggða- og samgöngumálum. Við hljótum að horfa til þess að við göngum á undan með góðu fordæmi um störf án staðsetninga og sveitarfélagið verði leiðandi í nýtingu rafrænna lausna.

Gauti fór yfir að samstarfsnefndin hefði aukið notkun fjarfunda eftir því sem á hefði liðið. „Frá mínum bæjardyrum séð þá held ég að það verði það neyðarúrræði að allir setjist upp í bíl til að komast á sama stað. Til þessa hefur fjarfundabúnaðurinn verið neyðarúrræðið. Velkomin til 21. aldarinnar,“ sagði Gauti og uppskar klapp úr salnum.

„Það sem gerir þessa sameiningu öðruvísi er að við erum að sameina sveitarfélög en ekki samfélög. Vegna fjarlægðarinnar verða samfélögin áfram til staðar og haldi sínum sérkennum. Það er lykillinn að því að sameiningin gangi upp. Þetta verður þó ekki tryggt með einni aðgerð. Það þarf að vera almennur vilji og áhugi heimamanna til að varðveita sérstöðuna og taka þátt.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar