Sögulega mikil þátttaka í utankjörfundaratkvæðagreiðslu

Vond veðurspá á kjördag hefur orðið til þess að sögulega mörg atkvæði hafa verið greidd utankjörfundar hjá sýslumanninum á Austurlandi. Áfram eru undirbúnar aðgerðir til að bregðast við vondri veðurspá.

Klukkan 13:00 í dag höfðu alls 889 atkvæði verið greidd utankjörfundar hjá embættinu. Mikill erill var í gær þegar 231 atkvæði var greitt og það sem af er degi höfðu 132 atkvæði verið greidd.

Það þýðir að í lok gærdags höfðu 757 atkvæði verið greidd. Í kosningunum árið 2021 voru þau 545 á sama tíma og voru þá óvenju mörg.

Kippur kom í utankjörfundaratkvæðagreiðsluna samhliða versnandi veðurspá fyrir kjördag. Svavar Pálsson, sýslumaður, segir fólk sem mæti til að greiða atkvæði undantekningalaust gefa veðurspána upp sem ástæðu þess að það sé mætt til að kjósa.

Auka atkvæðaseðlar voru sendir með flugi frá Akureyri til Vopnafjarðar í morgun þar sem atkvæðaseðlar þar voru við það að klárast. Á sýsluskrifstofunni á Eskifirði var í morgun innsiglaður kjörkassi sem hafði fyllst og nýr opnaður. Gísli Auðbergsson, formaður kjörstjórnar í Fjarðabyggð í áraraðir, segist ekki hafa verið kallaður til í slíkt verk áður við utankjörfundaratkvæðagreiðslu.

Þá tók sýslumaður ákvörðun um að opna kjörstað í Breiðabliki í Neskaupstað frá 10-11:30 í fyrramálið. Er um að ræða sérstaka ákvörðun vegna slæmrar veðurspár á kjörstað, á grundvelli lagaheimilda sem sýslumaður hefur um kjörstað við sérstakar aðstæður. Áður hafði sérstakur kjörstjóri verið skipaður í Mjóafirði.

Ákvarðanir um aðgerðir á kjördag eru í höndunum yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis og landskjörstjórnar. Bæði þar og hjá staðbundnum kjörstjórnum er fylgst með veðurspám, haldnir fundir og samtöl um hvaða kostir séu í stöðunni en ekki virðist útlit fyrir að stærri ákvarðanir verði teknar fyrr en í fyrsta lagi að morgni föstudags.

Helsti möguleikinn í stöðunni virðist vera að fresta kjörfundi, þannig að kosið verði líka á sunnudag þegar veðrið á að vera gengið niður. Þar með myndi öll talning frestast því ekki má byrja að telja fyrr en öllum kjörstöðum hefur verið lokað. Heimild er til að skipa undirkjörstjórnir sem geta talið en ljóst er að tregða er við það vegna mögulegra vandamála við utankjörfundaratkvæði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.