Söluandvirðið fyrst og fremst nýtt til endurbóta á íþróttahúsinu

Bæjarfulltrúar í Fjarðabyggð hafa heitið Reyðfirðingum að söluandvirði Rafveitu Reyðarfjarðar verði nýtt á staðnum, einkum í að endurnýja íþróttahús staðarins. Íbúar hafa barist fyrir úrbótum á aðstöðunni en þykir mörgum hverjum erfitt að þurfa að fórna rafveitunni í staðinn.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar staðfesti á fundi sínum í gær umdeilda sölu á Rafveiti Reyðarfjarðar til Rarik og Orkusölunnar. Fyrirtækin greiða samanlagt 507 milljónir fyrir rafveituna en ætlað er að sveitarfélagið fái 410 milljónir króna í sinn hlut eftir skatta.

Bæði á bæjarstjórnarfundinum í gærkvöldi og íbúafundi, sem haldinn var til að kynna hana á mánudagskvöld, tóku bæjarfulltrúar skýrt fram að ágóðanum yrði varið í uppbyggingu á Reyðarfirði.

Fordæmi frá Eskifirði

Þannig hafði Eydís Ásbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs, framsögu um mögulega nýtingu fjármunanna. Hún nefndi þar íþróttahúsið, sem hefur verið gagnrýnt fyrir smæð og erfitt aðgengi, eflingu Stríðsárasafnsins, uppbyggingu samkomusalar sem einkum myndi nýtast leikskólanum í félagsheimilinu Félagslundi og mögulegan flutnings félagsmiðstöðvarinnar þangað en núverandi húsnæði hennar þykir óviðunandi. Þá nefndi Eydís einangrun Fjarðabyggðarhallanna en verkfræðistofan vinnur að þarfa- og kostnaðargreiningu verksins.

Eydís boðaði að íbúafundurinn væri fyrsta skrefið í ræða nýtingu söluandvirðisins en boðaði frekari fundarhöld með íbúum í byrjun næsta árs. „Það er ljóst að fjölmörg tækifæri opnast til uppbyggingar. Það er nauðsynlegt að skoða næstu skref af kostgæfni og greina þessa kosti ásamt fleirum.“

Eydís rifjaði einnig upp að fordæmi væri fyrir að arður af sölu eignar í ákveðnum byggðakjarna innan Fjarðabyggðar væri nýttur á viðkomandi stað. Hún nefndi sölu hlutabréfa Fjarðabyggðar í Hraðfrystihúsi Eskifjarðar sem nýtt hefðu verið í skólabyggingar þar.

Mútur til að samþykkja söluna?

Reyðfirðingar hafa verið gagnrýnir á söluna og hugmyndin um nýtt íþróttahús var ekki tekin tveimur höndum á staðnum af öllum. Vert er þó að merkja afstöðu meðal þeirra sem töluðu á fundinum eftir kynjum, þeir karlar sem tóku til máls úr salnum virtist mótfallnir sölunni og gagnrýnir á uppbyggingu íþróttahússins meðan þær konur sem ræddu málin horfðu frekar á íþróttahúsið og virkuðu jákvæðar í garð þess.

Aðalheiður Vilbergsdóttir, formaður Ungmennafélagsins Vals, kom orðum að blendnum tilfinningum. „Sem formann Vals langar mig í íþróttahús. Mér finnst vont að tengja saman söluna og að við fáum íþróttahús. Mér líður pínulítið eins og verið sé að múta mér,“ sagði Aðalheiður. „Mér finnst það ekki virðing við okkur að ræða á sama fundi að selja innviði og veifa framan í okkur peningum sem kannski koma og kannski ekki því byggja þarf íþróttahús,“ sagði Guðni Þorvaldsson.

Ásta Ásgeirsdóttir skólastjóri benti á að aðstaða sundlaugarinnar væri þannig að aðeins hefði tekist að kenna helming lögboðinna sundtíma á þessu ári. Hildur Einarsdóttir lýsti stuðningi við íþróttahúsið. „Þetta er glæsileg gulrót sem ég fagna. Ég vil nýtt íþróttahús.“

Nýtt íþróttahúss ekki í meirihlutasamkomulagi

Spurningar komu úr sal um þörfina á íþróttahúsinu, sem ekki hefði verið minnst á í meirihlutasamkomulag Fjarðalista og Framsóknarflokks og hvort fjármunir úr sölunni dygðu fyrir nýju íþróttahúsi.

Þegar litið er á málefnasamninginn koma þar fram viðbyggingar leikskólanna á Reyðarfirði og Eskifirði, endurbætur á hjúkrunarheimilinu Uppsölum og bygging nýs hjúkrunarheimilis í Neskaupstað. Þá er einnig komið inn á einangrun Fjarðabyggðarhallarinnar og að viðhaldsþörf íþróttahúsa verði greind og framkvæmdum við þau forgangsraðað. Á fundinum var gerð athugasemd við að Fjarðabyggðarhöllinni væri blandað inn í umræðuna nú, hún væri í raun sameign Fjarðabyggðarbúa fremur en Reyðfirðinga.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, sagði rétt að uppbygging íþróttahúss væri ekki tilgreind í meirihlutasáttmálanum en engum sem fylgst hefði með stækkun Reyðarfjarðar síðustu ár gæti dulist að þörf væri á að stækka íþróttamannvirki líkt og skóla. Að undanförnu hefði verið reynt að greiða skuldir niður sem fyrst til að geta nýtt vaxtagjöld í rekstur og framkvæmdir. Hann sagði baráttufólk fyrir betra íþróttahúsi á Reyðarfirði alls ekki hafa farið fram með háreysti, þvert á móti bent kurteislega á að húsið væri að ganga úr sér. Eðlilegt væri að vilja nýtt íþróttahúss því íþróttaaðstaða skipti máli þegar fólk veldi sér staði til búsetu.

Jón Björn sagði hjúkrunarheimilið hafa verið sett í samninginn til að þrýsta á um ríkið en Fjarðabyggð er meðal þeirra sveitarfélaga sem síðustu ár hefur gagnrýnt óskýra og ónægja kostnaðarþátttöku ríkisins í rekstri hjúkrunarheimila.

Ekki verið að stilla íbúum upp við vegg

Einar Már Sigurðarson, formaður eigna- skipulags- og umhverfisnefndar, sagði að salan og uppbygging íþróttahússins væru vissulega tvær aðskildar ákvarðanir. Hins vegar væri mikilvægt að koma strax til á framfæri þeim skilaboðum að fjármagni sölunnar yrði ráðstafað á Reyðarfirði.

„Ég vil ekki að fólk túlki það sem svo að valið sé annað hvort að selja rafveituna eða fá ekki íþróttahúsið. Þó er ekkert launungarmál að íþróttahúsið kemur fyrr verði rafveitan seld. Það var ekki minnst á nýbyggingar í málefnasamningnum því við töldum fjármagnið ekki leyfa slík loforð. Það er betra að gera meira en lofað er en minna. Ef hagur lagast þá er hægt að gera meira,“ sagði hann.

Einar Már sagði ennfremur að áætlaður kostnaður við nýtt íþróttahús væri ætlaður 600-800 milljónir króna, en hægt væri að fara nokkrar mismunandi leiðir við byggingu þess sem gætu dregið úr kostnaði.

Dýrunn Pála Skaftadóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórninni, sagði að minnihlutinn tæki þá afstöðu á íbúafundinum að leyfa meirihlutanum að svara flestum spurningum, þótt minnihlutinn væri samþykkur því að selja rafveituna. Hún sagði Sjálfstæðisflokkinn hafa markað skýra stefnu um að arðurinn yrði nýttur á Reyðarfirði, einkum í íþróttamannvirkin.

Vantraust í garð bæjarfulltrúa

Nokkrar spurningar bárust úr salnum hvernig tryggt yrði að arðurinn yrði nýttur á Reyðarfirði því íþróttahúsið yrði ekki byggt um leið og eignir rafveitunnar yrðu afhentar þann 1. febrúar næstkomandi. Meðal annars var spurt út í hvort stofnaður yrði sjóður með sérstakri stjórn.

Bæjarfulltrúarnir svöruðu því til að fjármálastjóri sveitarfélagsins myndi halda utan um það. „Þessir peningar verða eyrnamerktir Reyðarfirði og Snorri (Styrkárson fjármálastjóri) heldur utan um þá,“ sagði Rúnar Gunnarsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins, sem brást við fullyrðingum um að bæjarfulltrúum væri ekki treystandi fyrir fjármununum. „Fyrir tveimur árum síðan var ég venjulegur Fjarðabyggðarbúi. Fljótt varð ég var við að ég væri bara vitleysingur og heimskingi því ég fór í pólitík.“

Í bókun bæjarstjórnar frá í gær um söluna er ítrekaður vilji til að fjármunir sölunnar renni fyrst og fremst til uppbyggingar íþróttahúss á Reyðarfirði „ásamt öðrum slíkum mannvirkjum og samfélagslegum verkefnum á Reyðarfirði. Farið verður í áætlunargerð og skipulag vegna þess eftir að salan hefur gengið í gegn.“ Ekki var ágreiningur um þetta atriði á bæjarstjórnarfundinum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar