Sorg í Neskaupstað vegna andláts leikskólabarns

Fjölmenn minningarstund var haldin í Norðfjarðarkirkju í gær eftir að tæplega tveggja ára gamalt barn úr bænum lést í byrjun vikunnar á sjúkrahúsi í Svíþjóð eftir bráð veikindi. Sóknarprestur segir sorgina þungbæra í samfélaginu.

„Samfélagið er brotið. Það er í þungu áfalli og sorg. Hluttekningin er alls ráðandi og hugurinn hjá foreldrum, bræðum og allri fjölskyldu barnsins “ segir sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, sóknarprestur í Austfjarðaprestakalli.

Hún leiddi athöfnina, en prestarnir sr. Benjamín Hrafn Böðvarsson og sr. Bryndís Böðvarsdóttir tóku einnig þátt í stundinni og hafa sinnt áfallavinnu í samfélaginu.

Barnið veiktist skyndilega í lok síðustu viku. Það var fyrst flutt með sjúkraflugi til Akureyrar, þaðan til Reykjavíkur og síðan til Svíþjóðar á sjúkrahús. Barnið lést þar aðfaranótt mánudags.

Jóna segir að við minningarstundina í gær hafi sést hvernig sorgin snerti alla í bæjarfélaginu. „Kirkjan var troðfull og þurfti að bæta við stólum til að fólk kæmist fyrir. Það sýnir sig að þegar svona áföll verða að fólki er nauðsynlegt að koma saman, leita stuðnings hvert hjá öðru og finna samkennd, samhryggð og samstöðu.“

Prestar úr Austfjarðaprestakalli og Rauði krossinn hafa leitt áfallahjálp í kjölfar atviksins. Séra Jóna segir hana beinast í fyrstu að nærsamfélaginu í Neskaupstað, halda utan um fjölskylduna og sinna skólasamfélaginu, starfsfólki, börnum og foreldrum, starfsfélögum foreldra barnsins, auk þess að reyna að ná til annarra þeirra sem tengjast fjölskyldunni, eða hafa orðið fyrir sárum missi, sem nú ýfist upp.

Vegna þessa áfalls hefur leikskólinn í Neskaupstað verið lokaður í vikunni og fleiri vinnustaðir hálflamaðir. Áfram verður áfallateymisvinna í Neskaupstað og Fjarðabyggð í samstarfi við fleiri viðbragðsaðila.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.