Sparisjóðurinn felur lögfræðingi að skoða söluna á Borgun

Sparisjóður Austurlands hefur falið lögfræðingi sínum að skoða sölu bréfa sjóðsins í Borgun og meta hvort ástæða sé til aðgerða. Bréfin voru seld félagi í eigu stjórnenda Borgunar á sama gengi og bréf Landsbankans.


„Það er hugsanlegt að verðmætið hafi verið meira en við og Landsbankinn fengum og að innherjar í félaginu hafi vitað meira en þeir létu uppi en maður vill síður vera með neinar ásakanir,“ segir Vilhjálmur G. Pálsson, sparisjóðsstjóri.

Sparisjóðurinn átti rúmlega 1,4 milljón hluti eða 0,32% af hlutafé kortafyrirtækisins Borgunar. Í lok árs voru bréfin seld félagi stjórnendanna á genginu 15,56 fyrir 22,2 milljónir króna. Bókfærður söluhagnaður var um 15 milljónir króna.

Skömmu áður hafði Landsbankinn selt ríflega 30% hlut sinn í félaginu á sama gengi. Ásakanir hafa verið uppi um að Landsbankinn, sem er í 98% eigu íslenska ríkisins, hafi selt á of lágu verði.

Borgun fékk mikinn hagnað úr sölu hlutar Borgunar í Visa Europe til Visa Inc en Landsbankinn hefur gefið út að hann hafi ekki vitað að Borgun fengu greiðslu vegna valréttarins. Meðal annars hefur verið tekist á um hver vissi hvað um þann rétt og hvenær.

„Við mættum á aðalfundi og vissum að félagið gekk vel en við vorum ekki upplýstir um valréttinn í Visa Europe. Það var löngu síðar sem við heyrðum um hann.

Stefnan hjá okkur var að losa út alla eignarhluti í félögum. Við vorum í sjálfu sér ánægðir með söluhagnaðinn þar til menn fóru að tala um að félagið hafi verið verðmeira.“

Vilhjálmur segir að salan hafi haft töluverðan aðdraganda. Bréf Sparisjóðsins voru í sölu hjá Íslenskum verðbréfum og voru upphaflega bókfærð á tæpar fjórar milljónir árið 2013 en það mat var hækkað í 7,1 milljón 2014.

Félag stjórnendanna gerði fyrst tilboð í bréfin í byrjun árs 2013 en því tilboði var hafnað. Frekari viðræður og tilboð áttu sér stað áður en salan gekk í gegn.

Fjármálaeftirlitið telur að verklagi Landsbankans við söluna hafi verið áfátt því það hafi verið ógagnsætt og mögulega verið ástæða til að þiggja utanaðkomandi ráðgjöf við mat á Borgun. Landsbankinn hefur sjálfur hafið skoðun á vinnunni innanhúss og undirbýr stefnu vegna sölu sinna bréfa. Fjármálaeftirlitið hyggst ekki aðhafast meira á meðan því stendur en hefur sett fram ósk um að verða upplýst um gang mála.

„Við höfum rætt við okkar lögfræðing og við ráðfærum okkur við hann,“ segir Vilhjálmur um afstöðu Sparisjóðsins. „Landsbankinn er farinn af stað að skoða málin af fullri alvöru, við fylgjumst með framvindu þess.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.