Sparisjóðurinn ekki seldur: Ekkert boð nógu gott
Hætt hefur verið sölu Sparisjóðs Norðfjarðar því ekki bárust viðunandi tilboð. Útibúinu á Reyðarfirði verður lokað í vor til að treysta reksturinn. Fimm einstaklingar missa vinnuna við það.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá stjórn sjóðsins í dag. Um miðjan ágúst var ákveðið á stofnfjáreigendafundi að auglýsa allt stofnféð til sölu í opnu söluferli. Ráðgjafafyrirtækið HF Verðbréf hafði umsjón með ferlinu. Auglýst var í byrjun september og tilboðin bárust í byrjun nóvember.
„Síðan þá hafa farið fram viðræður við bjóðendur. Stjórn Sparisjóðsins hefur nú, í samráði við stærstu eigendur hans, tekið ákvörðun um að hafna öllum tilboðunum. Það er mat stjórnar og eigenda að tilboðin séu of lág og ekki í samræmi við væntingar.
Þar sem ekki verður af sölunni hefur stjórn sjóðsins ákveðið hagræðingar aðgerðir til að tryggja rekstur hans. Í tilkynningunni er sagt að aðgerðirnar séu „margþættar“ án þess að það sé nánar útskýrt. Sú stærsta er lokun útibúsins á Reyðarfirði frá og með 1. apríl og uppsögn fimm starfsmanna.
„Eiginfjárstaða Sparisjóðs Norðfjarðar er traust en vegna ónógrar eftirspurnar eftir lánsfé og síaukinnar skattlagningar á fjármálafyrirtæki telur stjórn sjóðsins óhjákvæmilegt að grípa til fyrrgreindra aðgerða.“
Boða á til stofnfjáreigendafundar í janúar þar sem þeim verður kynnt ákvörðunin nánar og aðdragandi hennar. Stærstu eigendur Sparisjóðsins eru: Bankasýsla ríkisins, Fjarðabyggð og Samvinnufélag Útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN).