SparNor: Bankasýslan knúði fram nær tvöfaldun á launum stjórnar

sparisjodur_norrdfjardar.jpg
Bankasýsla ríkisins átti frumkvæði að því að laun stjórnarmanna í Sparisjóði Norðfjarðar verða nær tvöfölduð á nýju starfsári. Formaður stjórnarinnar segir vinnuálag stjórnarmanna hafa aukist verulega og ekki sjái fram úr því. Þá hafi launin almennt verið lægri en hjá öðrum sparisjóðum. Fulltrúar Fjarðalistans í bæjarstjórn Fjarðabyggðar segja hækkunina úr takti við hagræðingaraðgerðir.

Á nýafstöðnum aðalfundi sjóðsins var ákveðið að hækka laun stjórnarmanna úr 40.000 krónum á mánuði í 75.000. Laun formanns eru tvöfalt hærri.

Jón Einar Marteinsson, stjórnarformaður sjóðsins, segir helstu ástæðuna fyrir hækkuninni vera aukna vinnu stjórnarmanna og breytta samsetningu eigenda. Umbrotatímar í bankakerfinu hafi kallað á mikla vinnu stjórnarmanna. 

„Mikil vinna var í kringum söluferlið á síðasta ári og þó hætt hafi verið við sölu þá, er ljóst að fylgjast þarf náið með málum áfram og vinnuálag á stjórnarmönnum verður örugglega ekki minna á þessu starfsári.“

Frumkvæði frá Bankasýslunni

Ríkið á orðið helmingshlut í sjóðnum sem Bankasýsla ríkisins sér um. „Á aðalfundum eru það eigendur sem taka ákvarðanir um val á endurskoðanda, val á mönnun í stjórn, kjör þeirra og fleiri slík atriði. Það er ekki stjórnin sjálf sem tekur slíkar ákvarðanir. Einnig er það oft svo að það eru stærstu eigendur sem hafa frumkvæði að ákvörðunum á aðalfundum. Hjá Sparisjóði Norðfjarðar er það Bankasýsla Ríkisins sem fer með um helmingshlut í sjóðnum og það er að frumkvæði Bankasýslunnar sem stjórnarlaun voru hækkuð, enda einnig ljóst að þeirra atkvæði ræður þar úrslitum.“

Frá haustinu 2010 hefur Bankasýslan skipað tvo stjórnarmenn sjóðsins af fimm. Jón Einar segir að illa hafi gengið að halda sama fólkinu við störf allan tíman sem sé vont fyrir starfsemina.

„Annar þeirra hefur setið allan tíman en hinn hefur verið skipt um fjórum sinnum. Á svona tímum er mikilvægt að stjórnin sé samhent og ekki sé alltaf verið að skipta út stjórnamönnum. Eftir að Bankasýslan kom að sjóðnum þá er það ekki lengur svo að allir stjórnarmenn séu frá Neskaupstað. Það eru stjórnarmenn úr  Reykjavík og hjá þeim fer heill dagur í hvern fund og ekki eru greiddir dagpeningar fyrir þau ferðalög. Í viðbót kemur síðan önnur vinna á milli funda sem hefur verið talsverð og nokkuð ljóst að svo verður áfram.“

Jón Einar bendir á að laun stjórnarmanna hafi ekki hækkað um allnokkurt skeið og þau því dregist aftur úr því sem tíðkast hjá öðrum sjóðum. „Stjórnarlaun í Sparisjóði Norðfjarðar hafa verið lægri en hjá öðrum sparisjóðum, en eru í dag mjög svipuð og hjá öðrum sjóðum.“

Úr takti við aðrar hagræðingaraðgerðir

Ákvörðuninni um hækkun launa stjórnarmannanna hefur verið misvel tekið. Þannig lögðu fulltrúar Fjarðalistans í bæjarstjórn Fjarðabyggðar fram bókun á síðasta bæjarstjórnarfundi þar sem þeir lýsa furðu sinni á ákvörðuninni sem sé „úr öllum takti við þær hagræðingaraðgerðir sem Sparisjóðurinn hefur farið í.“ Sveitarfélagið er næst stærsti eigandi sjóðsins, á eftir ríkinu, með 22,4%.

Afgreiðslu sjóðsins á Reyðarfirði var nýverið lokað í spanarðarskyni. Í athugasemd við færslu á Facebook-síðu Fjarðalistans um málið ritar Bjarni Ólafur Birkisson, fyrrverandi útibússtjóri: „Stórundarleg ákvörðun. Hækkunin ein dygði til að halda úti lágmarksþjónustu á Reyðarfirði.“

Jón Einar segir erfitt að átta sig á hvað felist í lágmarksþjónustunni. Hækkun launa stjórnarmanna og lokun útibúsins séu óskyldar ákvarðanir, teknar af ólíkum aðilum.

„Ég  veit ekki hvað átt er við með lágmarksþjónustu, en ég á erfitt með að sjá hvað væri hægt að gera fyrir þá fjárhæð sem fer í hækkun stjórnarlauna. Þarna er um tvær óskildar ákvarðanir að ræða sem ekki eru teknar af sömu aðilum. Lokun á Reyðarfirði er tekin af stjórn sjóðsins sem sér um rekstur sjóðsins milli aðalfunda  og ákvarðanir um laun fyrir störf stjórnar er tekin af eigendum á aðalfundum sjóðsins.“
 
Tap af rekstri Sparisjóðsins á síðasta ári nam 12,2 milljónum króna. Bókfært eigið fé var 578 milljónir í árslok. Eiginfjárhlutfall sjóðsins er 18% en samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki má það ekki vera minna en 8%. Fjármálaeftirlitið hefur gert kröfur um að við endurskipulagningu fjármálastofnana sé hlutfallið ekki undir 16%. Stofnfé sjóðsins er rúmar 625 milljónir í eigu 86 aðila. Aðeins Fjarðabyggð og ríkið eiga meira en 10% af stofnfé. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.