Spellvirki í Neskaupstað að mestu upplýst
Lögreglan á Austurlandi telur sig hafa nokkuð öruggar heimildir um hverjir hafi valdið skemmdum í húsnæði sem áður hýsti verslunina Nesbakka og tjaldsvæðinu í Neskaupstað.„Það var búið að ganga berserksgang í búðinni, spreyja úr spreybrúsum, rusla út vörum og fleiru,“ segir Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN.
Félagið tók við húsinu á þriðjudag og var aðkoman þar ekki glæsileg. Guðmundur segir að tjónið sé í sjálfu sér ekki mikið en leiðinlegt að koma að byggingunni í þessu ástandi.
Tjónið er trúlega meira á tjaldsvæðinu. Þar var spreyjað á aðstöðuhús og ruslatunnur auk þess sem málningu hafði verið hellt yfir ærslabelginn þar.
Þær upplýsingar fengust hjá lögreglunni að hún teldi sig vita hverjir gerendur væru, en þær væru undir sakhæfisaldri. Að öðru leyti væri verið að taka saman gögn í málinu og ná utan um það.
Úr Nesbakka. Mynd: Guðmundur R. Gíslason