Spennt að halda áfram nýjungum í skólastarfinu

Lilja Guðný Jóhannesdóttir hefur verið skipuð skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands. Lilja hefur starfað í skólanum síðustu ár og segist spennt fyrir starfinu.

„Starfið leggst gífurlega vel í mig. Við höfum farið af stað með mikið af nýjungum á síðustu árum og það verður mitt stærsta viðfangsefni, að fylgja eftir þeim spennandi verkefnum,“ segir Lilja Guðný.

Þar má nefna FabLab smiðjuna en Lilja Guðný starfaði við hana árin 2014-2016. Hún segir að undir hana þurfi að skjóta styrkari stoðum fjárhagslega til að tryggja að smiðjan haldist opin fyrir almenning og nemendur af öllum skólastigum.

Eins bendir Lilja á nýtt dreifnám í rafvirkjun, vélvirkjun og vélstjórn sem fer af stað í haust. Námið er verkefnabundið og ráða nemar námshraða sínum sjálfir og verða smiðjur opnar utan dagvinnutíma til að koma á móts við nemendur úr atvinnulífinu.

Þá er verið að bíða eftir vottun menntamálaráðuneytisins á nýrri námsbraut til stúdentsprófs, nýsköpunar- og tæknibraut, sem búið er að kenna á í tvö ár og námsbraut í fiskeldi.

Lilja er skipuð í embættið til fimm ára frá og með morgundeginum en hún sótti ein um starfið. Lilja Guðný hefur lokið M.Ed. námi frá Háskóla Íslands, auk viðbótarnáms í stjórnun og mati menntastofnana frá sama skóla. Hún hefur víðtæka kennslureynslu á grunn- og framhaldsskólastigi, auk þess sem hún hefur sinnt kennslu í framhaldsfræðslu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.