Sr. Kristín Þórunn kveður Egilsstaðaprestakall

Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, prestur í Egilsstaðaprestakalli kveður söfnuð sinn á sunnudag en hún hefur verið valinn nýr prestur í Skálholtsprestakalli. Leit er að hefjast að arftaka hennar.

Tilkynnt var í vikunni að Sr. Kristín Þórunn hefði verið valin úr hópi fimm umsækjenda í Skálholtsprestakalli. Hún predikar við kvöldmessu í Egilsstaðakirkju klukkan 20:00. Í frétt frá prestakallinu kemur fram að það verði hennar síðasta guðsþjónusta innan þess.

Kristín Þórunn var valin til starfa í Egilsstaðaprestakalli árið 2022. Hún er fædd í Neskaupstað árið 1970, þar sem foreldrar hennar, sr. Tómas Sveinsson og Unnur Anna Halldórsdóttir djákni þjónuðu en hún er elst af fimm börnum þeirra. Hún ólst að mestu upp í Reykjavík en hefur sinnt prestsþjónustu í Kjalarnessprófastsdæmi, Garðaprestakalli, Laugarnesprestakalli, í lúthersku og anglikönsku kirkjunni í Genf, og í Egilsstaðaprestakalli.

Sóknarnefndir vinni þarfagreiningu


Samkvæmt upplýsingum frá Biskupsstofu er leit að arftaka hennar að hefjast. Samkvæmt lögum Þjóðkirkjunnar er þarfagreining fyrsta skrefið. Hún felur í sér að fulltrúar sóknarnefnda innan prestakallsins móta ramma, eða starfslýsingu, fyrir skyldur væntanlegs prests, til dæmis í barna- og æskulýðsstarfi, predikanir, helgihald eða öldrunarþjónustu. Því verki á að ljúka á tveimur vikum.

Í framhaldinu er starfið auglýst. Þegar umsóknarfrestur er liðinn kemur til kasta valnefndar, sem skipuð er fulltrúum sókna, prófasti og fulltrúa biskupsstofu. Nefndin á að vera skipuð minnst sjö einstaklingum, þar af fimm fulltrúum sókna. Möguleiki er að hafa fleiri fulltrúa í nefndinni, en einnig er ákvæði um að fjöldi sóknarbarna ráði vægi sókna í valnefndinni. Alls heyra 14 sóknir á Fljótsdalshéraði, Seyðisfirði og Borgarfirði undir Egilsstaðaprestakall.

Vonast er til að niðurstaða valsins verði ljós fyrir áramót. „Þetta er hið hefðbundna ferli sem fer í gang núna við ráðningu nýs prests á Egilsstöðum. Ráðning presta er eitthvað sem kirkjan tekur mjög alvarlega og það er vandað til verka við þarfagreininguna,“ segir Heimir Hannesson, samskiptastjóri Þjóðkirkjunnar.

Mynd: Þjóðkirkjan/Árni Svanur Daníelsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar