Séra Svavar: Snjóflóðin voru einfaldlega ekki umræðuefni

svavar_stefansson.jpg
Séra Svavar Stefánsson segir samfélagið í Neskaupstað á sínum tíma lítið hafa viljað ræða hinar sálrænu afleiðingar snjóflóðanna sem féllu á bæinn rétt fyrir jólin 1974. Hann tók við sókninni tveimur árum eftir áfallið og vildi reyna að græða dýpstu og ósýnilegustu sárin.
 
Rætt er við Svavar í jólablaði héraðsfréttablaðsins Austurgluggans. Hann var 27 ára gamall þegar hann flutti til Neskaupstaðar og tók við af séra Páli Þórðarsyni. Svavar ætlaði sér aðeins að vera í fimm ár en þjónaði á staðnum í fimmtán. Hann segir þögnina hafa mætt sér þegar hann kom austur.

„Þetta var einfaldlega ekki umræðuefni. Séra Páll sagði einu sinni við mig að svona slys væru öðruvísi  en önnur vegna þess að menn hafa vettvanginn á staðnum. Þegar bátur ferst sér það enginn. Það veit enginn að mennirnir eru í nauð en síðan sést ekkert meir nema kannski ef lík finnst síðar eða flak úr bátnum. 

Þarna voru menn með eyðilegginguna fyrir augunum allan veturinn. Og svo voru það þessi ofboðslegu veður sem menn sjá ekki lengur. Það var eitthvað svo margt sem lagðist á fólk tilfinningalega og andlega,“ segir séra Svavar.

Hann segir tíðarandann vera allt annan en í dag. Íslendingar hafi lært að meta áfallahjálp eftir að hafa séð gagnið sem hún gerði eftir snjóflóðin á Vestfjörðum fyrir tæpum tuttugu árum. Séra Svavar segist hafa reynt að ræða áföllin eftir snjóflóðin en litlar undirtektir fengið.

„Þar sem ég varnýkominn til starfa fannst mér þetta nærtækt verkefni til að takast á við. Ég talaði við skólastjórana, sóknarnefndina mína og þá ráðamenn bæjarins sem ég kynntist og mér fannst allir tala einhvern veginn í kringum þetta. Síðan fer ég að fitja mig nær ættingjunum sjálfum - fólki sem hafði misst nákomna - og þar gekk ég á vissan vegg.

Sérstaklega fannst mér fullorðið fólk ekki vilja ræða þetta. Ég er ekki ágengur maður, þannig lagað og lét þar við sitja þó ég væri auðvitað alltaf reiðubúinn að fara í gegnum þetta með fólki. Það var  einhvern veginn svo skýrt að þetta átti ekki að vera umræðuefni. Mér var nú boðið í margar skírnar- og fermingarveislur, svo og önnur mannamót og stundum fór ég af eigin hvötum ef ég þekkti fólk. 

Ég tók eftir því að ef minnst var á flóðin snerist umræðan um veðrið, hvernig það hefði verið á undan og hversu slæmt það hefði verið á eftir. En þegar maður fór að spyrjast fyrir um aðstandendur og hvernig þeim liði fékk maður eiginlega lítil svör.“
 
Séra Svavar hefur síðar talað við minningarathafnir um þá sem fórust í snjóflóðunum. Til stendur að gera yrði minningarreit um þá ofan við Mána, rétt við innkeyrsluna í bæinn. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.