SSA fékk lögbann á akstur Sternu: Fyrirtækið sinnti ekki viðvörunum
Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) fékk lögbann á akstur Sternu á leiðinni Egilsstaðir-Höfn-Egilsstaðir. Rúta fyrirtækisins var ekki kyrrsett á Egilsstöðum í gær. Fyrirtækið skoðar rétt sinn.
„Um áramótin 2011 – 2012 tók Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) við ábyrgð og eftirfylgni á sérleyfisakstri, frá Vegagerð ríkisins, á þeim leiðum sem tilheyra Austurlandi,“ segir í tilkynningu sem SSA sendi frá sér í morgun.
„Sérleyfin eru sex talsins og er eitt þeirra ekið tímabundið yfir sumarmánuðina, þ.e. leiðin Egilstaðir – Höfn – Egilstaðir. Eftir mikla undirbúningsvinnu var farið í vandað útboð á þeirri leið og samið við lægstbjóðanda, sem voru Hópferðabílar Akureyrar.
Í ljós kom síðan að Bílar og fólk, sem ekur undir nafni Sterna, og áður voru sérleyfishafar á þessari leið en tóku ekki þátt í útboði, ætluðu sér að halda áfram akstri á sínum eigin forsendum, þrátt fyrir að búið væri að semja við annan aðila um aksturinn. Var því kominn forsendubrestur fyrir samninga sem gerðir voru á grundvelli sérleyfisakstur á svæðinu, sem SSA hafði yfirtekið af Vegagerð.
Fór því SSA fram á að Sterna hætti akstri, og var þeim m.a. sent bréf frá Vegagerð ríkisins, þar sem vísað er í lög um sérleyfi, en þar sem því var í engu sinnt þá endaði málið með því að SSA fór fram á lögbann á akstri Sternu um sérleyfissleiðinni Egilstaðir - Höfn – Egilstaðir.
Eftir að lögbannið hafði verið tekið fyrir og samþykkt, um miðjan júlí, þá var því eðlilega fylgt eftir með aðkomu lögreglu, þar sem Sterna hafði ekki virt aðrar aðvaranir eða þann úrskurð sem kveðin var upp af Sýslumannsembættinu á Höfn.“
Framkvæmdastjóri Sternu fullyrti í gær að rúta fyrirtækisins hefði verið kyrrsett á Egilsstöðum í gær. Því hefur lögreglan hafnað, bílstjóra hannar hafa aðeins verið birt lögbannið. Hann segir fyrirtækið hafa falið lögmanni sínum að fara ofan í málin.