Stækkun flugbrautar á Egilsstöðum undirbúin
Ný akbraut við flugvöllinn á Egilsstöðum er meðal stærri samgönguframkvæmda sem eru hluti af 20 milljarða fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar til að mæta samdrætti í kjölfar covid-19 veirunnar. Bryggjur, vegir og ofanflóðavarnir eru meðal þess sem ráðist verður í á Austurlandi.Fjármálaráðherra mælti í gær fyrir þingfrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Í þingskjalinu er gerð er grein fyrir aðgerðum upp á 15 milljarða króna var lagt fram á Alþingi í gær. Mestu er varið til samgöngumála, rúmum 6 milljörðum króna.
Meðal stærri framkvæmdanna þar er undirbúningur gerðar nýrrar 1 km langrar akbrautar, sem einnig nýtist sem flughlað, við Egilsstaðaflugvöll. Að framkvæmdum loknum verður hægt að taka á móti um tuttugu flugvélum á stærð við Boeing 757 ef Keflavíkurvöllur lokast.
Í sumar verður farið í forhönnun verksins, rannsóknir á svæðinu, umhverfismat og skipulagsmál. Til þess og framkvæmda á Akureyrarflugvelli er varið rúmum hálfum milljarði króna en ekki er ljóst hvernig féð skiptist milli staðanna.
Kostnaðaráætlun fyrir framkvæmdirnar á Egilsstöðum liggur ekki fyrir en áætlaður heildarkostnaður verksins er allt að tveir milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að um 50 ársverk skapist við verkið. Yfirlögn á núverandi flugbraut, sem nokkuð hefur verið þrýst á um, er ekki hluti af þessu verkefni samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneytinu.
„Þrátt fyrir hrun í ferðaþjónustunni er brýn þörf fyrir uppbyggingu innviða og eru flugvellir einn af lykilþáttum fjárfestingarátaksins. Verkefnin eru arðbær. Þeim er hægt að flýta og þau skapa fjölbreytt störf með skömmum fyrirvara. Notum því tímann vel og höldum áfram,“ er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í tilkynningu.
Bent er á að í nýrri flugstefnu, sem kynnt er í samgönguáætlun, sé horft til lengri tíma og rík áhersla lögð á að alþjóðaflugvellir landsins mæti sem best þörfum flugrekanda fyrir varaflugvelli og hliðum inn til landsins verði fjölgað til að efla ferðaþjónustu.
„Hjá ríkisstjórninni er annað átak í undirbúningi sem tekur við á árunum 2021-2023 og mun flýting þessara framkvæmda sem og annarra samgönguframkvæmda birtast þar,“ segir Sigurður Ingi.
Aðrar framkvæmdir á Austurlandi
Til hafnarframkvæmda verður varið 750 milljónum. Þar á meðal er gerð stálþils á Djúpavogi og sjóvarnir á ýmsum stöðum vegna tjóns í óveðrum.
Sjö einbreiðar brýr verða breikkaðar. Ein þeirra er yfir Gilsá sem skilur að Velli og Skriðdal að austanverðu, samkvæmt gömlu hreppamörkunum.
Af 1,9 milljarði króna sem er veitt í vegframkvæmdir og hönnun fer ekkert austur. Hins vegar er milljarði veitt í tengivegi, sem dreifist í hlutfalli við þá tengivegi sem eftir eru á hverju svæði með möl. Þá er milljarður settur í viðhald vega um allt land.
Á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins eru settar 350 milljónir í að flýta framkvæmdum við ofanflóðavarnir í ár. Á Austurlandi er annars vegar að um að ræða snjóflóðavarnir undir Nes- og Bakkagiljum í Neskaupstað, hins vegar flóðavörnum í Lambeyrará á Eskifirði.
Þá er í samantektinni að finna fleiri verkefni sem ekki eru útskýrð nánar eftir staðsetningu.