Stærsta skemmtiferðaskip ársins til Seyðisfjarðar á morgun

Preziosa, eitt stærsta skemmtiferðaskip sem komið hefur til Seyðisfjarðar og hið stærsta sem kemur þangað í ár, er væntanlegt til bæjarins í fyrramálið. Annað risaskip kemur svo á sunnudag. Um fimm þúsund farþegar þeirra munu setja mark sitt á Seyðisfjörð og fleiri staði eystra um helgina.

„Göturnar í bænum verða eins og stórfljót af fólki,“ segir Aðalheiður Borgþórsdóttir, hafnarstjóri og bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Preziosa getur tekið 4345 farþega og verið með 1400 manna áhöfn en að þessu sinni verða rétt ríflega 3000 gestir með skipinu. Á sunnudag kemur Costa Mediterranea í sína aðra ferð í sumar. Þar er rúm fyrir 2680 gesti og rúmlega 900 manna áhöfn.

„Við höfum ekki sóst eftir þessum stóru skipum en þau sækjast eftir að koma til okkar. Við segjum ekki nei ef það er pláss en við höfum meira lagt áherslu á að fá okkar lítil og meðalstór skip, enda kemur mest af þeim.

Það hefur komið starfsfólk frá þessum skipafélögum í heimsókn þannig þau vita hverjar aðstæður hér eru, þjónustan og afþreyingin. Við erum reyndar með eina bestu aðstöðu á landinu til að taka á móti skipum því við höfum eina ferjuhúsið.

Þetta er í fyrsta sinn sem skip frá útgerð Preziosu kemur hingað þannig þetta er væntanlega tilraun. Við áttum ekkert von á að skip Costa kæmu ár eftir ár en það hafa þau gert þannig það er greinilega ánægja með staðinn.“

Stanslaus straumur upp að Búðarárfossi

Preziosa er of stórt til að komast upp að bryggju og mun því varpa akkeri í firðinum þaðan sem farþegar verða ferjaðir í land með bátum. Aðalheiður bendir á að mesta álagið af móttöku skipanna sé á þeim sem skipuleggi ferðir fyrir farþegana sem fara víða um Austurland.

„Skálanes er á topplistanum en tekur við takmörkuðum fjölda. Margir fara Fljótsdalshringinn, í Skiðuklaustur, upp að Hengifossi eða jafnvel upp í Óbyggðasetur. Núna eru Vök baths að bætast við sem við höfum kynnt síðustu tvö ár sem afþreyingu fyrir skipafélögin.

Síðan eru gönguferðir innanbæjar, inn í Vestdal eða upp að Búðarárfossi þangað sem er stanslaus straumur. Margir ganga inn í Fjarðarsel og ég held að það hafi mest komið um 2000 manns í Bláu kirkjuna á einum degi.

Fyrir nokkrum árum fór fjöldi skipanna allt í einu að vaxa það hefur bitnað á innviðum bæjarins. Við reynum að bæta úr því þótt það gangi hægt. Göngustígarnir okkar eru til dæmis farnir að láta á sjá.“

Aðalheiður segir að þótt álagið sé mikið á bæjarbúum þá daga sem stærstu skipin koma skipti þau miklu máli fyrir efnahag bæjarins. „Þeim fylgja mikil umsvif og skila miklu til bæjarfélagsins. Hér eru minjagripaverslanir með íslenska vöru en það er misjafnt eftir skipum hvað fólk kaupir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.