Starf framkvæmdastjóra Fjarðabyggðarhafna og yfirhafnarvarðar sameinað í eitt

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar staðfesti á fundi sínum í gær breytingar á skipulagi sveitarfélagsins. Til verður nýtt svið umhverfis- og skipulagsmála og ráðinn verður mannauðsstjóri. Þegar hefur verið ráðist í breytingar á yfirstjórn hafnarmála.

Til stendur að sameina starf framkvæmdastjóra Fjarðabyggðarhafna og yfirhafnarvarðar í eitt sem heyri undir framkvæmdasvið. Bæjarstjóri verði hafnarstjóri með ábyrgð á starfsemi hafnarinnar samkvæmt hafnalögum en daglegur rekstur verði í umsjón framkvæmdasviðs.

Tillögurnar hafa verið unnar af stjórnkerfisnefnd sveitarfélagsins og voru samþykktar af henni á þriðjudag, hafnarstjórn á miðvikudag og í bæjarstjórn í gær. Tillögurnar voru samþykktar með öllum atkvæðum í hafnarstjórn og bæjarstjórn.

Í samtali við Austurfrétt staðfesti Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri, að framkvæmdastjóri Fjarðabyggðarhafna hefði þegar látið af störfum en yfirhafnarvörður starfi þar til hann fari á eftirlaun síðar á árinu.

Starf þeirra verður sameinað í eitt. Verið er að klára starfslýsingu fyrir það og finna endanlegt heiti á það áður en það verður auglýst. Karl Óttar bendir á að á ákvörðunin komi í kjölfar breytinga sem farið hafi af stað á síðasta kjörtímabili þar sem ábyrgð hafnarstjóra á verklegum framkvæmdum hafi verið færð til framkvæmdasviðs.

Leyfismál og eftirlit framkvæmda- og umhverfismála verður samþætt skipulagsmálum með tilurð umhverfis- og skipulagssviðs sem verður undir stjórn bygginga- og skipulagsfulltrúa. Í tilkynningu sveitarfélagsins segir að með því verðu lögð aukin áhersla á umhverfismál í starfseminni.

Þá verður til nýtt starf mannauðsstjóra sem heyra mun undir bæjarritara. Mannauðsstjóranum er ætlað að fylgja eftir áherslum sem lúta að vinnuvernd og sálfélagslegum þáttum á vinnustöðum. Með sé undirstrikuð áhersla á mikilvægi mannauðsmála en starfsmenn Fjarðabyggðar og undirstofnana eru liðlega 500 talsins. Þá munu persónuverndarmál falla undir starfið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.