Starfsdagur á mánudag í austfirskum skólum
Starfsdagur verður á mánudag í skólum á Fljótsdalshéraði, Djúpavogi, Seyðisfirði, Vopnafirði og í Fjarðabyggð til að undirbúa viðbrögð skólanna við útbreiðslu kórónaveirunnar covid-19.Ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi sínum í morgun að virkja heimild í sóttvarnalögum um að takmarka tímabundið skólastarf. Grunn- og leikskólar eru á forræði sveitarfélaga og ákveða þau hvernig skólastarfi er háttað, að uppfylltum skilyrðum sem menntamálaráðherra setur.
Sem fyrr segir hefur þegar verið tilkynnt um starfsdag á mánudag í fimm sveitarfélögum á Austurlandi, sem þýðir að skólastarf fellur niður. Dagurinn er ætlaður til að skipuleggja skólastarfið þann tíma sem takmarkanir verða á samkomum, en samkomubannið sem tilkynnt var um í morgun gildir fram á annan dag páska, mánudaginn 13. apríl.
Foreldrar og forráðamenn leik- og grunnskólabarna eru beðnir um að fylgjast vel með upplýsingum sem birtar verða um helgina og á mánudag á heimasíðum sveitarfélaganna og skólanna.
Uppfært 14.3 með upplýsingum frá Vopnafirði.