Starfsleyfi til moltugerðar fellt úr gildi

Keyra þarf lífrænum úrgangi frá Austurlandi til Eyjafjarðar til moltugerðar eftir að starfsleyfi fyrir moltugerð Íslenska gámafélagsins á Reyðarfirði var fellt úr gildi. Ferli við útgáfu nýs leyfis er komið af stað.

Íslenska gámafélagið hefur haft leyfi til moltugerðar á Reyðarfirði síðan í lok árs 2017. Leyfið var alla tíð umdeilt en íbúar höfðu áhyggjur af lyktarmengun yfir nærliggjandi svæði þar sem er iðnaðarstarfsemi, íbúabyggð og tjaldsvæði Reyðfirðinga.

Af þessum sökum voru meðal annars gerðar kröfur um ráðstafanir á svæðinu til að binda lykt og fullgilt starfsleyfi ekki gefið út fyrr en sannreynt hafði verið að brugðist væri við kröfunum.

Einn íbúanna kærði útgáfu starfsleyfisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í kæru hans gerir hann athugasemdir við hvernig staðið var að útgáfu starfsleyfis var staðið, úttekt á því hafi ekki verið fullnægjandi og að umfang starfseminnar væri slíkt að hún ætti að gangast undir mat á umhverfisáhrifum.

Athugasemdafrestur þremur dögum of knappur

Úrskurðarnefndin tekur ekki efnislega afstöðu til athugasemdanna. Úrskurður hennar byggir hins vegar á að Heilbrigðiseftirlit Austurlands hafi ekki veitt athugasemd í fullar fjórar vikur, eins og kveðið sé á um í lögum.

Starfsleyfið var auglýst þann 12. október 2017 og veittur frestur til skriflegra athugasemda til 7. nóvember. Hann hefði hins vegar átt að vara til 10. nóvember. Nefndin segir ekki hægt að útiloka að á þeim tíma hefðu getað komið fram athugasemdir sem hefðu breytt innihaldi starfsleyfisins. Þess vegna sé ekki annað hægt en fella starfsleyfið úr gildi.

Úrskurðurinn var kveðinn upp fimmtudaginn 28. mars síðastliðinn. Í kjölfarið var moltugerðin á Reyðarfirði stöðvuð.

HAUST hefur þegar auglýst nýtt starfsleyfi á heimasíðu sinni. Þar er frestur til athugasemda veittur til 2. maí. Nýtt starfsleyfi gæti í fyrsta lagi fengist um miðjan maí.

Óþægilegt að þurfa að keyra öllu til Eyjafjarðar

Jón Franzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins, segir stöðvunina ekki hafa í för með sér mikið tjón fyrir fyrirtækið. Nokkur óþægindi séu hins vegar að því að keyra lífrænum úrgangi norður í Eyjafjörð til moltugerðar þennan tíma. „Það er ekki umhverfisvænt að keyra öllu til Eyjafjarðar,“ segir hann.

Einhver aukakostnaður fylgi því fyrir sveitarfélögin sem séu með samning við félagið en það hyggist veita þjónustuna á kostnaðarverði. Á þessu tímabili eru áætlaðar tvær losanir í Fjarðabyggð og ein á Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði.

HAUST gerði athugasemdir við verkferla við jarðgerðina á fundi sínum í desember. Brugðist hefur verið við þeim athugasemdum sem þá voru gerðar.

Jón kveðst vonast eftir að fljótt gangi að koma jarðgerðinni á Reyðarfirði af stað enda hafi hún gengið vel. „Moltugerðin á Reyðarfirði hefur gengið og afurðin er góð. Við vonumst til að geta farið að afhenda hana íbúum seint í sumar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.