START og Goðar eru engin glæpasamtök

velhjol_fdherad_mars12_web.jpg
Þau tvö vélíþróttafélög sem starfa á Egilsstöðum, Akstursíþróttafélagið Starf og Bifhjólaklúbburinn Goðar tengjast ekki skipulagðri glæpastarfsemi. Þau vinna þvert á móti því að skipulögð glæpastarfsemi skjóti rótum á svæðinu undir fölsku flaggi. Lögreglan óttast að Egilsstaðir séu næsti áfangastaður skipulagðrar glæpastarfsemi mótorhjólagengja.

„Nýjasta er að þeir vilja setja upp svona hóp á Egilsstöðum,“ sagði Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins á opnum fundi í Reykjavík fyrir helgi um skipulagða glæpastarfsemi. Lögreglan fylgist með ellefu vélhjólasamtökum. 

Samtök eins og Vítisenglar og Outlaws hafa verið í fréttunum fyrir grófa ofbeldisglæpi meðlima þeirra. Þau eru sögð hafa áhuga á að færa út kvíarnar og hafa meðal annars skotið rótum á Akureyri. Miðað við orð Karl Steins eru Egilsstaðir næstir á dagskránni.

Fulltrúar sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs, Goða og START funduðu í dag í tilefni þessara frétta. Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að fram hafi komið á fundinum að félögin hafi ekki átt í neinum samskiptum við þau samtök sem lögreglan fylgist með „enda ekki í anda þeirrar stefnu er þau starfa samkvæmt. 

Félögin leggja ríka áherslu á að koma á framfæri þeirri jákvæðu stefnu er þau hafa að leiðarljósi í sínu starfi sem m.a. á að vera til þess fallin að sporna gegn því að skipulögð glæpastarfsemi skjóti rótum á svæðinu undir fölsku flaggi.“

Til stendur að boða „sem fyrst“ til opins fundar um málið þar sem fulltrúi lögreglunnar upplýsi um stöðu mála en einnig verði þar gerð grein fyrir því starfi sem unnið er hjá félagasamtökunum og því samstarfi sem er í gangi og fyrirhugað er með þeim og sveitarfélaginu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar