Stefán Bogi: Skilur fyrrverandi forsætisráðherra ekki hugtakið stoðstofnun?

stefan_bogi_mai2012_web.jpg

Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, segir nýlegan leiðara í Morgunblaðinu benda til þess að fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar skilji ekki hugtakið stoðstofnun. Það endurspegli áhersluna sem verið hafi á málefni landsbyggðarinnar. 

 

„Mér fannst forvitnilegt að átta mig á því að ritstjóri Morgunblaðsins, sem ég tel allar líkur á að sé fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar til langs tíma, viti ekki hvað stoðstofnun er eins og fram kom í skrifum hans,“ sagði Stefán Bogi á síðasta fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.

„Það segir kannski meira en mörg orð um þann fókus sem verið hefur á málefnum landsbyggðarinnar að undanförnu að menn kippa sér verulega upp við að til séu fyrirbæri sem heita stoðstofnanir og að það sé gott að styrkja þær og efla.“

Hæðst að „Sameinuðu stoðstofnuninni“

Tilefni orða Stefáns Boga var leiðari í Morgunblaðinu 11. maí síðastliðinn þar sem gagnrýndur var fundur ríkisstjórnarinnar á Austurlandi við það tilefni að sveitarfélögin í fjórðungnum sameinuðu sínar helstu stoðstofnanir í eina sem fengið hefur heitið Austurbrú.

Þar er spurt hvað felist í „Sameinuðu stoðstofnuninni“ og hver hafi fundið upp nafnið. Leiðarahöfundur gefur lítið fyrir að stofnunin styrki sóknaráætlanir landshlutanna og að styrkjum ríkisins sé þjappað saman á færri staði.

„Sá sem samdi þennan texta, til að koma upp úr kokinu á ráðherra viðkomandi, á hátíðarstund úti á landi, hlýtur að vera sá sami sem sagði Jóhönnu að Jón Sigurðsson hefði fæðst í Dýrafirði. Og hún gerði hvoru tveggja. Trúði fæðingarsögunni eins og nýju neti og lét sig hafa að lesa upp hina óskiljanlegu samsuðu rétt eins og eitthvert vit væri í henni.“

Hvert er lýðræðislegt umboð ráðuneyta?

Bæjarfulltrúar á Fljótsdalshéraði virtust ánægðir með tilurð stofnunarinnar ef marka má orð þeirra á fundinum. Stefán Bogi blés einnig á áhyggjuraddir um að stofnunin fjarlægðist íbúana og grasrótina. Þvert á móti styrkist aðkoma þeirra að stoðkerfinu þar sem fulltrúar frá þeim geirum sem Austurbrú starfar að koma að stjórnun hennar.

„Austurbrú sem slíkri er ekki falið stjórnvald heldur er hún framkvæmdaarmur. Sveitarfélögin vinna saman þau verkefni sem þau þurfa að sinna.“

Hann undraðist áhyggjur þingmanna af lýðræðishalla. Samtök eins og Samband sveitarfélaga á Austurlandi væri síst án minna lýðræðislegs umboðs heldur en ráðuneytin.

„Þetta er klassískt dæmi um að menn sjái flísina í augum náungs. Mönnum væri nær að beina áhyggjum sínum að stjórnkerfinu í heild en ekki sveitarfélögunum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.