Stefnt að áframhaldandi loðnuleit á næstu dögum

Meiri loðna fannst í loðnuleitarleiðangri sem lauk um helgina heldur en þegar leitað var í janúar. Ekki hefur þó enn fundist næg loðna til að hægt sé að gefa út veiðikvóta en leit verður haldið áfram á næstu dögum.

„Það mældist töluvert meira en í janúar en það er samt engin kvótaráðgjöf að koma,“ segir Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar.

Fimm skip hafa að undanförnu leitað að loðnunni sem eru eitt af öðru að skila sér til heimahafnar. Margrét EA kom í land á Akureyri á laugardagshöfn, Börkur NK til Norðfjarðar í gærkvöldi og Aðalsteinn Jónsson til Eskifjarðar í morgun. Þá er Polar Amaroq á leið til Norðfjarðar.

Guðmundur segir að tilkynningar um niðurstöður leitarleiðangurs sé að vænta á morgun. Hann staðfestir þó að loðna hafi fundist. Mest hafi fundist við Kolbeinseyjarhrygg, en einnig sást loðna úti fyrir Austfjörðum, þar sem hana mátti reyndar einnig sjá í janúar.

Skip stofnunarinnar, Árni Friðriksson, er enn á sjó og hefur í morgun fetað sig suður eftir meðfram landgrunnskantinum úti fyrir Austfjörðum. Guðmundur segir að verið sé að kanna hve langt til suðurs finna megi loðnu, áður en skipið snúi við og haldi aftur í norðurátt.

Hann segist eiga von á að farið verði til mælinga aftur á næstu dögum og reiknar með að veiðiskipin verði þá áfram með í för. Nánari tímasetning veltur á veðri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.