Steingrímur J: Fjárfest í skapandi greinum þegar við verðum rík á ný
Íslenska ríkið áformar milljarða fjárfestingu í hinum skapandi greinum á næstum árum þegar búið verður að koma jafnvægi á ríkissjóð. Þegar vantar fólk menntað í menningarfræðum á atvinnumarkaðinn.
Þetta kom fram í ávarpi ráðherrans við setningu hönnunarráðstefnunnar Make It Happen á Egilsstöðum í gærkvöldi. Steingrímur sagði að á teikniborðinu væru hugmyndir um milljarða fjárfestingu í hinum skapandi greinum af hálfu ríkisins „þegar við verðum rík aftur.“
Fjármununum verður meðal annars varið í fjárfestingu í ferðaþjónustu, kvikmyndaiðnaði og rannsóknum.
Steingrímur sagði að þegar væri eftirspurn á vinnumarkaðinum eftir menningarmenntuðu fólki, til dæmis hönnuðum og kvikmyndagerðarfólki.
Steingrímur hrósaði vinnu heimamanna á Austurlandi í uppbyggingu menningariðnaðarins. Hann sagði Austfirðinga hafa sýnt frumkvæði í að leita svara við spurningunni um hvernig hægt sé að ná menningu og hefðum inn í atvinnusköpun.