Steingrímur J. vill leiða lista VG

steingrimur_j_sigufsson.jpg
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnu- og nýsköpunarmálaráðherra, tilkynnti í morgun að hann vildi leiða lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi. Hann hefur setið í efsta sæti VG og áður Alþýðubandalagsins í Norðaustur og Norðurlandskjördæmi eystra frá árinu 1983.

„Hugur minn stendur til þess að viðhalda í fyrsta lagi þeirri sterku stöðu sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur byggt upp, bæði í Norðausturkjördæmi sem og á landsvísu,“ segir í tilkynningu Steingríms.

„Í öðru lagi að leggja í dóm kjósenda ótvíræðan árangur ríkisstjórnarinnar við uppbyggingu landsins eftir efnahagshrun nýfrjálshyggjunnar og svara fyrir verk hennar í kosningabaráttunni. Samhliða og nátengt er að leggja grunn að áframhaldandi samstarfi félagslega sinnaðs fólks við landsstjórnina á komandi kjörtímabili. 

En í þriðja lagi og ekki síst vil ég ásamt félögum mínum um allt land leggja fram krafta mína í þágu vinstri stefnu, umhverfisverndar, kvenfrelsis, friðarbaráttu og félagslegrar alþjóðahyggju.

Með þá reynslu að vopni sem hartnær 30 ára seta á Alþingi og meira og minna samfelld forustustörf í íslenskum stjórnmálum í aldarfjórðung hafa fært mér vonast ég til að geta enn um sinn lagt lóð á vogarskálar baráttunnar fyrir samfélagi jafnaðar og sjálfbærrar þróunar þannig að heldur muni um.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar