Steypa þarf yfir olíuleka úr El Grillo áður en sjórinn hlýnar

Umhverfisráðherra hefur tryggt tæpar 40 milljónir króna þannig að hægt verði að stöðva olíuleka úr breska olíuskipinu El Grillo sem liggur á botni Seyðisfjarðar. Bæjarstjóri segir hreinskipta umræðu um lekann síðasta sumar hafa verið stuðandi en nauðsynlega. Töluverð olía er enn í tönkum skipsins.

„Það stuðaði okkur öll en kom málunum á hreyfingu,“ segir Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar, um orð kajakræðarans Hlyns Vestmanns Oddssonar. Hann komst í fréttirnar síðasta sumar þegar hann birti myndir af olíublautum fuglum í Seyðisfirði sem hann kallaði „mengaðasta fjörð landsins.“

Orð Hlyns urðu hins vegar til þess að Aðalheiður og Rúnar Gunnarsson, yfirhafnarvörður á Seyðisfirði, funduðu með Umhverfisstofnun, Landhelgisgæslunni og umhverfisráðherra í byrjun október í fyrra. Í lok mánaðarins fóru kafarar frá gæslunni niður að flakinu til að skoða aðstæður.

Útlit fyrir að lekinn myndi aukast

Niðurstöður þeirra voru að töluverður olíuleki væri vegna mikillar tæringar úr mannopi sem liggur niður að einum af tönkum skipsins og að sá leki myndi aðeins aukast með tímanum. Til að stöðva lekann þarf að steypa yfir opið.

Áætlaður kostnaður við verkið, sem tekur um tvær vikur með ferðum varðskipsins Þórs fram og til baka milli Reykjavíkur og Seyðisfjarðar, er tæpar 40 milljónir. Ríkisstjórnin samþykkti nýverið tillögu umhverfis- og auðlindaráðherra um að ráðast í aðgerðirnar.

„Þegar aðgerðir til viðspyrnu efnahagslífsins fóru af stað hafði ég samband við ráðherra og minnti hann á að fyrir lægi verkefni sem til væri verk- og kostnaðaráætlun fyrir og hann tryggði fé til þess, sem er frábært,“ segir Aðalheiður.

Virkar sprengjur

Hún vonast til að hægt verði að fara í verkefnið um leið og álag minnkar á Landhelgisgæslunni út af covid-19 faraldrinum, en grípa þarf til aðgerða áður en sjórinn hlýnar því þá byrjar olían að leka út. Fara verður með gát því við skoðunina í fyrra fannst meira í skipsflakinu heldur en olía.

Kafarar gæslunnar fundu 23 sprengjukúlur á brúarvæng skipsins. Sprengjusérfræðingar fjarlægðu þær og gerðu óvirkar en ljóst er að enn er töluvert af ósprungnum sprengjum um borð í skipinu. Það er því hættulegt köfurum og gæti í versta falli orsakað enn frekara mengunarslys.

Enn 10-15 tonn eftir

El Grillo var 10 þúsund tonna olíubirgðaskip sem lá á Seyðisfirði þegar þýskar flugvélar sökktu því í febrúar árið 1944. Árið 1952 var olíu dælt úr skipinu og aftur árið 2001, þegar rúm 60 tonn af hreinni olíu náðust úr því. Enn er þó talið að 10-15 tonn af olíu séu eftir um borð.

Þess vegna er gert ráð fyrir að inn í steypuna verði sett rör til að hægt verði að dæla úr skipinu þegar sjór hlýnar. Slíkt gæti tekið nokkrar tilraunir og þurft að gera við fleiri tanka en núverandi leki kemur úr. Eins er til skoðunar að setja upp mengunarvarnagirðingu í kringum flakið til að grípa olíuna. Eins er gert ráð fyrir að flakið verði vaktað, farið verði að því árlega og metið hvort frekari aðgerðir séu nauðsynlegar.

Síðasta sumar var einnig haft sambönd við bresk stjórnvöld og óskað eftir aðkomu þeirra að aðgerðum við skipið. Það flækir málið að eignarhald á flakinu er óljóst. Vélsmiðjan Hamar mun hafa keypt það árið 1952 og BP hafa dælt úr því. Bretar hafa boðið ráðgjöf á meðan eignarhaldið er óljóst.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.