Stillt upp hjá Miðflokknum í nýju sveitarfélagi
Miðflokkurinn hefur stofnað deild til að undirbúa framboð til sveitarstjórnar í nýju sameinuðu sveitarfélagi Fljótsdalshéraðs, Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar.„Að stofna deildina er fyrsta skrefið í að taka þátt. Við erum mjög spennt því það verður spennandi að taka þátt í að móta nýtt sveitarfélag,“ segir Hannes Karl Hilmarsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins á Fljótsdalshéraði.
Stofnfundur hinnar nýju deildar var haldinn síðasta laugardag. Deild hefur verið starfandi á Fljótsdalshéraði, þar sem flokkurinn bauð fram síðast og fékk einn bæjarfulltrúa, en hann bauð ekki fram á hinum stöðunum.
Þröstur Jónsson, Þórlaug Alda Gunnarsdóttir og Halla Sigrún Sveinbjörnsdóttir sitja í stjórn deildarinnar sem skiptir með sér verkum á fyrsta formlega fundi. Sigurður Ragnarsson og Pétur Guðvarðarson eru varamenn.
Í kjölfarið á fundi stjórnarinnar verður skipuð nefnd til að stilla upp frambjóðendum á framboðslista fyrir kosningarnar þann 18. apríl.