Stöðfirðingar þurfa að sjóða neysluvatn sitt framyfir páska
Niðurstöður síðustu sýnatöku úr neysluvatni á Stöðvarfirði sýnir að það er enn mengað og upp á vantar að vatnið standist lágmarkskröfur miðað við reglugerð þar að lútandi. Það merkir að Stöðfirðingar ættu til öryggis að sjóða allt sitt neysluvatn meðan svo er.
Þetta staðfesti Svanur Freyr Árnason, sviðsstjóri framkvæmda- og umhverfissviðs, við Austurfrétt síðdegis í dag. Sökum frídaga flestra yfir páska verður ekki unnt að mæla stöðuna að nýju fyrr en á þriðjudaginn í næstu viku. Jafnan tekur einn til tvo daga að fá niðurstöður til baka svo Stöðfirðingar þurfa að sætta sig við stöðuna að minnsta kosti eina viku í viðbót. Mengunin uppgötvaðist fyrst eftir sýnatökur á föstudaginn í síðustu viku.
Tæp vika er liðin síðan að sýnatökur Heilbrigðiseftirlits Austurlands leiddu fyrst í ljós að mengun var í drykkjarvatni bæjarins. Allar götur síðan hefur íbúum verið ráðlagt að bullsjóða allt sitt neysluvatn en óhætt er að brúka vatnið til annars konar nota á heimilum og í fyrirtækjum.